fimmtudagur, desember 18, 2003

Kvef í nefi

Ég bý yfir nokkuð undarlegum kvilla. Ég er nefnilega komin með flensu, en ekki venjulega flensu, onei! Þessi flensa lýsir sér í því að ég þarf alveg óstjórnlega að hnerra.... en svo hnerra ég barasta ekkert. Þetta er með því meira óþolandi af mannlegum eiginlegikum, það þekkja þetta flestir, þegar maður þráir fátt eins mikið og bara að fá að hnerra, en verða ekki að ósk sinni! En þetta gerist nú, í þessari flensu minni, um það bil 30 sinnum á dag. Auk þess virðist ég vera að kanna mörk þess hversu mikið er mannlega mögulegt að snýta sér. Ég vaknaði í morgun, með báðar nasir stíflaðar (eða stíbblaðar, eins og ástand mitt gerir að verkum) og másaði eins og meðvitundarlaus rostungur, því stór hluti öndunarfæra minna var í lamasessi. Þrátt fyrir stjórnlaust snýterí, virðist ekkert ætla að gefa sig, þetta er barátta upp á líf og dauða, og flensan er að vinna. Allt stefnir í að ég endi í hnipri í einhverju húsasundi, grátandi eins og smábarn sem hefur verið svipt snuðinu sínu. Þetta er semsagt mjög vægðarlaus flensa sem ræðst á sálrænt ástand mitt jafnt sem líkamlegt

---------------------

Ég var að átta mig á því að ég hljóma alveg ósköp svipað miðaldra konu sem nýtur þess að segja frá óförum sínum en þjáist í raun ekki af neinu öðru en sjálfsvorkunn.... :s

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|