föstudagur, júní 17, 2005

Er að hlusta á - Wonderwall með Oasis

Eftir þessi tvö ár mín í menntaskóla verður það sífellt skýrara fyrir mér hvað Landakotsskóli var ömurlegur staður, sérstaklega fyrir stelpur. Ég held að allavegana ein af hverjum þrem stelpum hafi verið þunglynd, með átröskun eða viljað vera með átröskun. Enda ekki að undra, allavegana eins og ég upplifaði þetta (get eins og gefur að skilja ekki talað frá öðru sjónarhorni) voru reglurnar nokkurnveginn svona: Ég var með þessum vinahóp, aðrar voru með öðrum vinahóp, og ef ein úr mínum hóp reifst við einhverja úr hinum hópnum þá hataði ég hana og allar hennar vinkonur. Bekkurin sló persónulegt met þegar 6 stelpur og 1 strákur fóru að gráta í einni afmælisveislu. Allt var oftúlkað og greint niður í eitthvað rugl sem Bridget Jones gæti bara verið þokkalega stolt af. Á þeim tíma fannst mér ég vera nakin ómáluð og talaði í símann að meðaltali í 4 klukkustundir á dag.
En sama hvað ég hataði þennan tíma, og þrátt fyrir allt baktalið, vesenið, klíkuskapinn og gelgjuna þá fæ ég alltaf nostalgíusting í magann þegar ég heyri Wonderwall. Í einni af bekkjarferðunum ákvað einn strákurinn að þetta yrði bekkjarlagið okkar, og hann var nógu vinsæll til að hrinda þessu í framkvæmd. Eftir tvo daga kunnu jafnvel hörðustu Korn aðdáendur textann. Og í hvert skipti sem ég heyri það gleymi ég öllu þessu leiðinlega sem átti sér stað í gagnfræðaskóla, ég óska þess næstum að ég væri komin þangað aftur og þyrfti aldrei að verða stór.

Takk Jónas

7 Comments:

At 1:05 f.h., Blogger Klara said...

Lúðinn ég að kommenta fyrst á eigin blogg en eftir að hafa lesið þetta sé ég hvað ég er orðin hryllilega væmin! Þetta er vöðvabólgan sem talar, ekki þessi vanalega, hárbeitta, ádeiluKlara sem vægir engu og er dáð af öllum. Sú Klara er væntanleg innan skamms

 
At 8:03 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Haha, Jónas er maðurinn!

 
At 11:43 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég er ekki frá því að ég hafi fellt nokkur tár yfir þessu Klara mín ;) Annars er þetta gott lag! Og hvar varst þú í gær?

 
At 6:23 e.h., Blogger Arngunnur Árnadóttir said...

Mér fannst þetta nú bara gott, ekkert væmið. Af því að þetta var svona ekta.
(Þetta eeer svo sæt mynd!)

 
At 6:09 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Við eigum jú öll okkar dökku fortíð...Þú veist, ég var eitt sinn fastur í klóm hraðrar raftónlistar og fannst það eitt stórkostlegasta sem ég hafði heyrt. "Djöful eru þeir góðir að búa til svona danstónlist með tölvunum sínum!", hugsaði ég.
Hræðilegt það og mikið gleðst ég yfir að svona tímabil líða yfir.

 
At 3:13 e.h., Blogger María Rut said...

Talandi um Oasis....

Ég var á Heathrow um daginn, í bol með Íslenska fánanum. Var svo heppin að sitja á Buissness class lounge-inu, þegar Oasis gaurarnir labba allir inn. Eftir stutta stund labba ég framhjá þeim því ég var að fara á barinn þegar að Liam eða Noah segja við mig ,,ei are you from Iceland" Ég var einsog lúði... sagði mjög fljótt ,,yes" labbaði í burtu, settist niður og fór að lesa. Talandi um lúða. Eina tækifærið mitt í heiminum að tala við þá og ég klúðraði því.

 
At 3:32 e.h., Blogger Doddi said...

Vá, hvað ég kannast við magafiðringinn! Og ótrúlegt en satt er það akkúrat Wonderwall með Oasis sem framkallar hann, enda var hann oft spilaður í "partíum" á þessum yndislega eftirminnilega en hégómafulla og pínlega aldursskeiði.

 

Skrifa ummæli

<< Home

|