fimmtudagur, desember 25, 2003

Jól o_0

Jólin eru komin. Dagurinn í dag hefur runnið sitt skeið óvenju hratt, klukkan er orðin tuttugumíndurí þrjú og mér finnst hann rétt vera að byrja... Ég held að ég sé nokkuð skrýtin manneskja, í það minnsta að almenningsálitið telji mig skrýtna manneskju, því ég fékk óheyrilega mikið af skrýtnimanneskjudóti og svo dót frá fólki sem veit ekki hvað það á að gefa skrýtnu manneskjunni og gefur henni því þetta klassíska, nammi, kerti, ilmgums o.s.frv. Og baðdót! ég fékk alveg óheyrilega mikið af baðdóti!!! Ég á nú tveggja ára birgðir af baðsöltum, freyðibaði, sápum, baðkúlum, þurrkuðum blómum og svona ilmkertum til að skella á baðbrúnina og gera stemmninguna viiiirkilega kósý. Baðdót er sosum ágætt, en mig er farið að gruna að ég sé annaðhvort óskaplega illa lyktandi eða að fólki finnist ég eitthvað súper stressuð. Æ, maður á ekki að leggja alltof mikla túlkun í gjafir...
Annars bar hæst að ég fékk alveg stórkostlegt day-by-day calendar með Garfield, sem bjargar alveg lífi mínu eftir að grettirinn var fjarlægður úr mogganum. Nú get ég haldið áfram að byrja hvern dag á góðum garfieldbrandara, allavegana út árið 2004! Svo fékk ég 8ball, svona kúlu sem maður hristir og fær svör uppúr. Ægilega gaman. Svo er ég orðin vel birg af indverskri kvikmyndatónlist, því ég fékk ekki aðeins doob-doob-a-rama heldur einnig doob-doob-a-rama 2!!!! Eins og ég segi... ætli ég sé ekki nokkuð skrýtin manneskja....
Jólaandinn hefur samt ekki alveg komið yfir mig, því miður.... Ég spóka mig samt hin hressasta í loðnum bleikum sokkum og tweety bol (einnig bleikum, og glitrandi - jólagjöf, nb) úttroðin af góðum mat og sé fram á það að ilma vel næsta áratuginn! En jólin voru skrýtin í ár, eftir allt það sem yfir hefur gengið. Til dæmis gleymdist alveg að reka mig í herbergistiltekt, og helmingurinn af laufabrauðinu er ennþá ósteikt inn í ísskáp. Ég man einhvernveginn alltaf eftir jólunum sem einhverri hátíðarstund þar sem maður mátti vart mæla af ótta við að spilla kyrrðinni sem kemst yfir allt. Í þetta skipti stakk ég hinsvegar af milli rétta og skellti mér upp í óumbúna rúmið í ótiltekna herberginu og las nokkra kafla í Ísfólkinu (ekki dæma mig, það er bannsett rugl, en merkilega ávanabindandi). Æ... þetta er ekki blogg sem nokkur vill lesa á jólunum, en það les þetta heldur enginn.... það er ágætt, þá getur maður skrifað óáreittur um hvað sem maður vill (*setur upp prakkarasvip*)
Vonandi kemur jólaandinn yfir mig von bráðar
Gleðileg jól!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|