sunnudagur, desember 21, 2003

Jóladoði

Maður hlýtur að mega vera dálítið niðurdreginn stundum. Núna eru að koma jól og allir eru á spani með pinnstíf bros á óaðfinnanlega glöðum og rjóðum andlitum. Er ég sú eina sem finn ekki fyrir þessu? Mér finnst eins og það sé brjáluð krafa á mér um að vera svaka hamingjusöm og ég finn það bara ekki hjá mér. Alla venjulega daga þá má maður vera í hvernig skapi sem manni sýnist. Jújú, mamma mun nöldra við mann yfir að vera ekki nógu virkur við herbergistiltektir og slíkt, en maður kemst þó upp með að vera eilítið latur, ekki satt? Núna er maður nýskriðinn upp úr prófum, það eru 2 og 1/2 dagur til jóla og maður á eftir að kaupa allar gjafirnar, taka til í íbúðinni, skrifa jólakort, hitta þessa þrjátíuþúsund vini sem manni dauðliggur skyndilega á að hitta, halda mömmu góðri því hún er að fá taugaáfall, pakka inn jólagjöfum og þurfa að horfa uppá það að eiga pabba sem kann ekki lengur að brosa. Og allt í einu er eins og himinn og jörð séu að farast, klukkan tifar klukkan tifar, reddaðu málunum því það gerir enginn fyrir þig. Ég er ekki að rausa um þetta jólastress sem virðist svífa eins og faraldur um götur borgarinnar og gera alla, konur, menn og húsdýr, alveg bandbrjálaða, því ég stend fast í þeirri trú að maður sé sjálfur eins stressaður og maður leyfir sér að vera. Það er enginn (allavegana enginn sem ég þekki) sem mun erfa það við mann í lengri tíma að maður gaf þeim gjöf undir þúsundkalli. Það er enginn sem lítur niður á mann vegna þess að maður náði ekki að baka tólf-sortirnar. Það eru hvort sem er allir of uppteknir af sínu eigin stússi til að gefa því gaum hvort þessi eða hin sé viðunandi húsmóðir og eigi alltaf ótæmandi birgðir af vanilluhringjum og mjólk-út-í-kaffið. En allir eiga að vera svo hamingjusamir. Ef maður dirfist að vera ekki hamingjusamur, þá daufgar maður dýrðina, eins og eini nirfillinn í blokkinni sem tímdi ekki að fá sér seríuna sem allir hinir keyptu, svo nú er blokkin ægilega hallærisleg. Ég er sennilega mest niðurdrepandi bloggarinn á veraldarvefnum þessa stundina, en er eitthvað að því að vilja ekki vera glaður eftir pöntun?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|