föstudagur, júní 18, 2004

Eftirfarandi er ýkjufærsla, skrifuð í svartsýniskasti.

Fyrir þá sem ekki enn hafa náð að lesa milli línanna (*hóst* Ragnheiður *hóst*) er ég að vinna í frystihúsi á Flateyri. Ég er mennskt múldýr. Í dag vann ég í 10 tíma og kom heim svo þreytt að ég gat ekki staðið. Á morgun er líka yfirvinna. Á morgun er laugardagur. Lífið er grimmt

Ég var ekki nógu sátt við viðtökurnar við emailbeiðninni. Skráði mig inn á MSN.
"you have one new message in your hotmail inbox" Jess!!!! En nei, er þetta ekki auglýsing frá hotmail staff. Mig langaði að bíta í hnúann á mér en það var fiskilykt af honum.

Ég held samt uppi fullri hörku. Kemur það ekki til hugar að hringja mig inn veika þótt ég sé þreytt og stundum langi mig til að skera mig "óvart" bara til að komast heim.´Ég er hinsvegar fram úr hófi samviskusöm og fékk því næstum taugaáfall þegar ég svaf yfir mig. Eigandinn sá hinsvegar hvað mér var brugðið yfir þessum afglöpum og ég held að hún hafi túlkað þetta sem ábyrgðarkennd og vinnusemi. Ég er nú í náðinni.

Skar mig reyndar um daginn. Í ljósi fyrri ummæla þykir mér réttast að taka það fram að það var algerlega óvart. Svo óvart reyndar að ég tók ekki eftir því fyrr en 2 tímum seinna þegar eitt puttahólfið í hanskanum var farið að fyllast af blóði (enga taugaveiklun, þetta eru frekar þröngir hanskar). Puttar verða dofnir í frystihúsum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|