Tryllt djammhelgi, en ekki hvað?
Sjálfsblekking, sjálfsblekking. Lítið verður djammað þessa helgi, eins og flestar helgar, enda mun ég seint kallast partýljón. Ég er engu að síður mjög sátt við mitt hlutskipti, fór í gærkvöldi í heimsókn til frænda míns, gisti og fékk amerískar pönnukökur í morgunmat ásamt fleira góðgæti. Ég ætla ekki að telja það allt upp því þá verður þetta eins og skáldsaga eftir Enid Blyton. En ég lifi altént eins og blómi í eggi. Svo, eftir rúman hálftíma mun annar frændi minn koma að sækja mig og mun ég fara með honum, konunni hans og Fríðu, frænku/vinkonu minni upp í bústað þar sem viðhafður verður próflestur. Þetta verður ágætis helgi.
Ég mun einnig hafa með mér DVD myndina góðu og ætla að horfa á hana í bílnum. Arngunnur gat rétt til, þetta er Spirited Away, og hún er yndisleg. Ömurleg reyndar þegar hún er döbbuð, en á japönsku og með enskum texta er hún frábær. Döbbunin er nefnilega hrikaleg. Ég var að skoða heimildamynd um hana og þar var sagt að ætlunin hefði verið að hafa hana sem aðgengilegasta fyrir sem flesta og því hafi verið notast við almenna, venjulega ensku, sem ætti ekki að trufla neinn með einhverjum auka hreim. Það reyndist ekki raunin, onei! Þetta er sú alsúrasta, bandarískasta enska sem eyru mín hafa nokkru sinni numið. Ég get varla lýst því hér en heyrn er sögu ríkari. Stelpan fer sérstaklega í taugarnar á mér, bandarísk enska bara passar ekki inn í japanska teiknimynd. Mér finnst almennt að þegar verið er að döbba myndir eigi að notast við sem hlutlausasta ensku til að hún henti sem flestum.... En myndin er frábær á japönsku.
Í gærkvöldi nennti ég ekki að fara að sofa alveg strax svo að ég hreiðraði um mig uppi í rúmi með fartölvu og DVD mynd. Þetta var vampírumynd þar sem blóðið fékk sko aldeilis að flæða, þetta er ein af þessum myndum sem myndi eflaust framkalla aðsvif hjá systur minni. Ég sat hinsvegar sallaróleg með heyrnatólin mín og lét ósköpin ekkert trufla mig. Svo kláraðist myndin, ég slökkti ljósið, lá uppi í rúmi án nokkurar hræðslu eða myrkfælni, nema kannski bara við prófin, dreymdi svo fallega í alla nótt og vaknaði hress og kát í amerískar pönnukökur. Má af þessu álykta að ég sé með járnhjarta?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home