fimmtudagur, maí 27, 2004

.....eftir þónokkrar viðgerðir

Úff. Ógnvænlegur vírus sýkti tölvuna mína. Vesalings vélin stundi þungan og féll í yfirlið eftir aðeins nokkrar sekúndur ef einhver dirfðist að vekja hana. Harkalega hrikti í stoðum veruleika míns og um stund var ég orðin uggandi um eigin framtíð. Nú er sólin farin að skína á ný. Innilegar þakkir til Björns og Villa, sérfræðilækna sem gáfu af dýrmætum tíma sínum. Tárin þorna á vöngunum, skýjunum léttir og við blasir endurreisn. Húrra!

Ég tek ef til vill of djúpt í árinni, en það er þó staðreynd að í tvo daga eða svo var eins og öll tengsl við umheiminn hefðu verið rofin. Þá fattaði ég að netnotkun mín væri orðin óhófleg. Tók mig á og afrekaði mikið. Endurskipulagði allt dótið mitt og raðaði því í skúffur. Skrifaði lista á lista ofan. Datt inn í nokkrar sápuóperur og saumaði buxur. Nú er stefnan tekin á að læra að hekla og skrifa skáldsögu.

Auk þessara afreka fór ég svo í tjaldferð. Sú tjaldferð mun seint teljast til afreka. Sú tjaldferð var með eindæmum subbuleg. Mígandi rigning allan tímann og tjaldið lak. Það var samt gaman á tímabili. Hápunktur ferðarinnar var án efa þegar Júlía villtist inn í E-bekkjar tjaldið. Hápunktur vikunnar var hinsvegar sennilega þegar vinur minn laumaðist að mér og bömpaði mig svo harkalega að ég valt um koll, tók aðra stelpu með mér í fallinu og missti prinspólóið mitt. Sem lýsir sennilega einna best hvað undarfarnir dagar hafa verið viðburðalitlir.

Næst er það Flateyri. Ég mun fara á þriðjudaginn en dagur endurkomu er óstaðfestur. Mér hefur verið tjáð að ég muni sennilega fara að gráta eftir fyrsta vinnudaginn minn. Ég læt það nú vera, en þetta mun ábyggilega bara herða mig, sem er jákvætt. Unglingavinnan mun seint teljast til erfiðisvinnu

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|