Stigagangur Örlaganna
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að stigagangurinn minn er mjög sorglegur staður. Með réttu ætti að nefna hann "El suspiro de la cucaracha", eða "Andvarp kakkalakkans" þar sem allt bendir til þess að þangað fari kakkalakkar til að deyja, einhver svona rómantískur hinsti áfangastaður fyrir þessar skelklæddu sálir. Í þessum annars mjög snyrtilega stigagangi er nefnilega yfirleitt að finna kakkalakka í andarslitrunum. Einnig virðist sem þeir geri þetta eftir einhverju ritúali. Stigagangurinn er alltaf þrifinn á þriðjudögum, og á hverjum miðvikudegi er mættur nýr kakkalakki, hvers lík liggur svo til sýnis í heila viku áður en ræstingakonan leggur hann til hinstu hvílu í sorptunnunni á horninu. Þetta hlýtur að vera með ráðum gert, enda ekki að undra, maður deyr jú bara einu sinni, og það væri bölvaður antíklæmax fyrir einhvern lakkann að fái bara einn til tvo daga á dánarbeðinu.
Persónulega fer þetta ekkert fyrir brjóstið á mér. En mikið vona ég að þeir ákveði ekki að flytja dánarstað sinn upp á fyrstu hæð, íbúð 1-B.
Hvílið í friði - ógeðin ykkar!
1 Comments:
Ég hló upphátt. Ég elska þig Klara :D
Skrifa ummæli
<< Home