mánudagur, september 10, 2007

Um dýrin úti í Afríku, um apana og fleira

Ég byrjaði á spænskunámskeiðinu í dag. Það var eins og við mátti búast, svona fyrsta daginn - vandræðalegt og fullt af könum. Það fyrrnefnda mun sennilega breytast. Það síðarnefnda er víst blákaldur raunveruleikinn. Þetta er annars skemmtileg tilbreyting frá vinalausum hversdagsleikanum, enda vona ég að það að fara með þjóninum mínum í spænska góða hirðinn hafi ekki verið hátindur félagslífs míns hér í landi.
Ég hafði lúmskt gaman af að hitta svona hóp af nýju fólki og stilla fordómagírinn alveg í botn. Með mér í bekk eru eftirfarandi nemendur:
- Þýsk stelpa sem er alveg ótrúlega löng og mjó, og með mjótt andlit - svolítið eins og einhver hafi teygt hana. Hún talar spænsku með frönskum hreim af því að eftir menntaskóla vann hún í eitt ár í disneylandi í parís. Hún var klædd í fjólublátt frá toppi til táar, og maulaði grillaða samloku þegar hún sagði mér að hún væri að læra viðskiptafræði, en fyndist skemmtilegast að semja trúbadoratónlist. Frábært eintak
- Norsk stelpa sem mér fannst alveg fullkomlega óþolandi. Hún gjammaði alltaf fram í ef hún hélt að maður hefði sagt eitthvað vitlaust (og reyndist þá oftar en ekki hafa rangt fyrir sér), setti stút á munninn og dillaði hausnum við hvert tækifæri, og var með kæk að skella alltaf í góm, og þegar mjóa þýskan benti henni á það gerði hún það aftur, ennþá hærra og setti svo stút á varirnar og gerði svona "true dat" höfuðhreyfingu. Hún talaði líka manna hæst um málstofn íslensku, og greip alltaf fram í fyrir mér þegar ég reyndi að útskýra fyrir henni að íslenska væri ekki skyldust finnsku. Það eina sem er súrara en besserwisser er besserwisser sem veit ekkert í sinn haus.
- Bandarískur strákur sem var með dýpstu rödd sem ég heyrt og að horfa á hann var eins og að horfa á venjulega manneskju gegnum stækkunargler. Stórkostleg upplifun þar sem hann sat við hliðina á löngu mjóu stelpunni. Hann gerði hinsvegar lítið annað en að horfa tómlega út í loftið.
- Ástralskur maður - já maður - sem vinnur tvær vikur í mánuði á olíuborpalli í skotlandi en hinar tvær í Granada, af því að það kostar minna að leigja þar. Úff hvað ég myndi fá ógeð á flugvélamat!
- Bandarískur strákur sem er blússandi besserwisser og frá "oklahoma", sem er víst "bang in the middle of the States, man!"
- Bandarískur strákur sem tókst á einum degi að klúðra öllum æfingunum, misskilja öll fyrirmæli, gleyma öllum bókunum sínum og koma seint bæði fyrir og eftir hlé. Maður tekur alveg ofan fyrir þessum.

- Íslensk stelpa sem getur ekki ímyndað sér að þetta fólk sé betra en allir krakkarnir heima. Mikið sakna ég ykkar allra!

-Já, og kennarinn minn heitir Juampe. Ég ætla hér eftir að kalla hann "Svampi"

4 Comments:

At 8:53 e.h., Blogger Þorsteinn said...

Hahaha!! Bang in the middle, man

 
At 9:38 e.h., Blogger birta said...

ahahahahahaha...

við söknum þín líka :)

hugsaðu samt um allar partýsögurnar sem þú getur sagt okkur um asnalega fólkið á spænskunámskeiðinu. hlakka strax til.

 
At 2:43 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Tetta fólk hljómar yndislega hraedilegt. Í mínum skóla er hinsvegar allt fullt af Hollendingum.

 
At 10:24 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

ég hló og hló og hló...bang in the middle of the states man....hver annar en maður frá oklahoma

 

Skrifa ummæli

<< Home

|