sunnudagur, mars 07, 2004

postponing the inevitable

Varúðarráðstöfun: Ef þú tilheyrir þeim meirihluta blogglesenda sem les blogg upp á skemmtanagildi og húmor, ekki lesa þessa færslu. Hún hefur alla burði til að vera þunglyndisleg og dauf.

Ég er ótrúlega, ótrúlega reið. Ástæðurnar eru eitthvað sem verður ekki tíundað hér, enda er alltaf vafasamt að skrifa um misklíð eða vanþóknun á gjörðum annarar manneskju á netið. Æi, afhverju í fjáranum var ég þá að byrja á þessu? Vegna þess að ég hef ekkert annað að skrifa, en ég er að reyna að blekkja sjálfa mig til að trúa að það hafi í alvöru eitthvað drifið á daga mína þessa 4 daga síðan ég bloggaði síðast. Auk þess sem sú færsla var líka frekar rýr. Ég lifi nokkuð viðburðalitlu lífi, virðist vera.
Það sem ég skrifa núna er ekki einu sinni fullmótað í höfðinu á mér svo það má gera ráð fyrir að það sé nokkuð samhengislaust á skjá (myndi sega blaði, en það er nokkuð vafasamt að nokkur manneskja stundi það að prenta blogg út. Jaseisei.
Eins og er spila ég bara Mad World í Gary Jules útgáfunni aftur og aftur, sem segir allt sem segja þarf um hugarástand mitt. Dagurinn í dag hefur verið fullur af slæmum fréttum, tómleika, vonleysi og reiði. Slatta af húmor líka, reyndar, því ég fór á leiklistaræfingu, en ég er ekki alveg nógu mikið með sjálfri mér í dag til að jákvæðu hugsanirnar geti yfirgnæft þessar neikvæðu til lengri tíma.
Talandi um jákvætt og neikvætt, ég hef tekið eftir því að það er rosalega viðtekið alltaf að maður eigi alltaf að vera ánægður. Ef manneskja er alveg gífurlega hress einn daginn, án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, þá finnst öllum það ágætt, en ekkert óvenjulegt. Hins vegar, ef maður er bara leiður eða pirraður þá hlýtur eitthvað að vera að, og margir láta sig ekki fyrr en þeir hafa veitt upp úr manni einhverja dulda ástæðu þess að maður er í því skapi sem maður er. Getur það ekki bara verið að einn daginn framleiði maður bara aðeins minna af hressleikahormónum en annan daginn? Ég held að meðalskapgerð meðalmanneskjunnar sé nokkurn veginn í hlutlausa gírnum. Afhverju er þá ekki hægt að ætla að tilefnislaust vont skap sé alveg jafn eðlilegt og tilefnislaust gott skap? Ég er samt ekki að segja að fólk eigi þá bara að vera í sínu vonda skapi í friði, og smita það svo út frá sér með pirringi og áhugaleysi, því það er ekkert að því að reyna að bæta skapið dálítið. Það er bara þessi tilhneiging til að þurfa alltaf að komast að undirrót vandans sem fer í taugarnar á mér.
Neikvæðni dagsins í dag á sér samt undirrót. Það er ástæðan fyrir því að ég sit og blogga þótt að það eina sem mig langar virkilega að gera er að sofna. En ég vil ekki fást við þessar löngu mínútur áður en maður sofnar. Á þessum mínútum brýst hugurinn úr öllum böndum. Ég vil ekki þurfa að hugsa. "En þú þarft að hugsa til að skrifa" munu snarpir ef til vill hugsa, en þegar maður skrifar hefur maður þó einhvern hemil á því sem þýtur gegnum hausinn. Ég ætla því að vaka þar til ég verð svo örþreytt að ég sofna áður en ég næ að hugsa í kvöld. Hvað sem það nú gerir við einbeitingu mína í skólanum á morgun. Skítt með það

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|