laugardagur, febrúar 14, 2004

Ahhh... Valentínusardagur

Í gær var föstudagurinn óhugnanlegi. Föstudagurinn varasami. Föstudagurinn sem ber að óttast. Í gær var föstudagurinn þrettándi. Þrettándi febrúar - afmælisdagur móður minnar. Fyrir mitt leyti sór hann sig ekki alveg í ætt við þær ógurlegu goðsagnir sem fylgja þessum degi - hvað þá fyrir mömmu leyti, og var fremur afslappaður. Ég held satt best að segja að þetta hafi verið ágætis dagur. Fyrir utan vægt lungnabólgubakslag og 38,5 stiga hita sem ég lét sem vind um eyru þjóta - skellti í mig tveim parasetamól og þrammaði svo á leiklistaræfingu.
Leiklistaræfing gekk líka ágætlega, ég tók dálitlum framförum miðað við þann hryllingsleik sem ég hef sýnt undanfarið og mátaði agnarlítinn hatt.
Með öðrum orðum ágætis dagur. Ég geri ráð fyrir að dagurinn í dag, valentínusardagur beri álíka mikið nafn með rentu og gærdagurinn. Það stefnir ekki í neitt ástarvesen hjá mér í dag (ég segi vesen því ég er bitur ;o). Hins vegar mun ég fagna því að vera komin á lappir og taka til í herberginu mínu. Þar hefur ekki verið þrifið í u.þ.b. mánuð og því sést hvorki í rúmið né gólfið. Ég gruna að eitthvað hafi dáið þarna inni og eflaust er þar líka að finna ræktarlegan mygluvöxt og annan bakteríugróður sem myndi nægja til að heilla hvaða vísindamann sem er. Af einhverjum ástæðum er ég samt ekkert ósátt við þetta hlutskipti en það má eflaust skýra með þeirri staðreynd að ég hef verið meira og minna rúmföst síðastliðna viku sökum lungnabólgu. Það sem verra var, ég var í rokna stuði alla vikuna en hafði takmarkaða líkamlega orku. Þetta var álíka sársaukafullt og að vera ótrúlega ótrúlega hamingjusamur og lífsglaður en þurfa að vera í 168 klukkutíma eðlisfræðitíma hjá Guðbjarti. Undir lokin var ég algerlega að missa vitið, bjó til puttabrúðuleikrit um heimilisofbeldi, lærði að láta flösku af einhverju ógeðslegu fótakremi halda jafnvægi á brúninni af "Jónas Hallgrímsson", samdi lag um mann sem heitir Carlos og á erfitt með að ná sér í konu þar sem hann hefur ýmsa undarlega siði, og glápti löngum stundum á útlínur flugu sem lést inni í loftljósinu okkar. Það hentar mér EINKAR illa að vera veik.
Þar sem ég var veik, var ég eins og aumingi í upphitunum fyrir leiklistartímann í gær. Reyndar er ég eins og aumingi í öllu sem tengist einhvers konar teygjuæfingum. Leikstjórinn sagði við okkur að muna að fólk sem er gott í íþróttum lifi betra kynlífi - betra úthald, fleiri stellingar - Þetta setur dálítinn ugg að mér þar sem ég er álíka sveigjanleg og vinnutími starfsmanns hjá utanríkisráðuneyti bandaríkjanna. This does not bode well

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|