Undiraldan
Ég horfði á hryllilega breska bíómynd. Og þá á ég ekki við að hún hafi verið hryllilega bresk, heldur að hún hafi verið hryllileg, og þar að auki bresk.Hún var ein af þessum myndum um bælt aðalsfólk og bældu þjónana þeirra. Það er náttúrulega ekki nema von að þau séu bæld, þau eru svo gífurlega heft af formlegum talsmáta. Ég elska stifflip-ensku, en stundum þykir manni bara nóg um, þegar yfirbrytinn segir við ráðskonuna, sem vill svo til að hann er gríðarlega ástfanginn af, og það er gagnkvæmt: "I have to polish his lordship's shoes this evenening and thus have to cancel our aqquaintance, but I do sincerely hope to see you bright and well tomorrow morning for we must promptly serve tea at 9 am". Þetta hefur náttúrulega enga möguleika til að verða á nokkurn hátt ástríðuþrungi?. Ég meina, hversu djúp ástartjáning er það að segja: "I am very fond of you, and I do hope that our lives will be forged to one". Myndin er svo náttúrulega bara bæld út í gegn og ég var orðin ótrúlega frústreruð. Þau þekkjast í einhver ár, og allan tímann er maður að hugsa "KYSSTU hana bara, fjandakornið". Svo giftist gellan bara einhverjum öðrum gaur en er alla tíð óhamingjusöm í hjónabandi og skilur því við hann. Þá fær hún, 20 árum of seint, bréf frá gamla yfirbrytanum og hann býður henni að koma aftur til starfa á setrinu. En þá vill svo heppilega til að dóttir hennar verður ófrísk og ráðskonan verður að vera um kyrrt í bænum til að annast um dótturina. Gömlu, bældu elskendurnir hittast, eru áfram bæld, segja ekkert innihaldsríkt eða áhugavert og svo fer hann aftur. Ogþávarðaðbúið. Ég var í þann veginn að verða öskureið, ég meina, það er ekkert gaman að horfa á myndir þar sem EKKERT gerist, og í lok myndarinnar er maður á NÁKVÆMLEGA sama stað og í byrjun myndarinnar, nema hvað að aðalsöguhetjan er bara ennþá óhamingjusamari. En svo fattaði ég að heimurinn er engin feelgood mynd úr bandarísku kvikmyndaveri. Maður getur aldrei yfirgefið einhverja við altarið og gifst frænku hennar og svo er það bara allt í lagi því brúðargreyið yfirgefna var hvort eð er miklu skotnara í bróður brúðgumans. Djöfuls rugl. Staðreyndin er sú að allar manneskjur eru upp að vissu marki bældar. Hver kannast ekki við það að hafa sagt eitthvað sem manni fannst alrangt, en það hentaði við verandi aðstæður? Ég sat í strætó um daginn og horfði á fólkið í kringum mig og ég fattaði að hver einasta manneskja var gersamlega óútreiknanleg. Ég vissi nákvæmlega ekkert um neinn af samferðalöngum mínum, og enginn þeirra vissi neitt um mig. Mig langaði til að standa upp og öskra: "Hæ, ég heiti Klara, ég hef enga hæfileika í því sem mér finnst skemmtilegast að gera og það sem ég kann finnst mér leiðinlegt. Pabbi minn er með krabbamein á 4 stigi og ég er ótrúlega hrædd, en allt sem ég hugsa bæli ég niður, vegna þess að ég er þess fullviss að fólk haldi að ég vilji bara láta vorkenna mér, nema kannski fjölskyldan mín, en eins og gefur að skilja hefur hún alveg nóg að bera án þess að þurfa að halda mér uppi í leiðinni. Ég er grænmetisæta en ég veit ekkert af hverju". En ég veit að sama þótt ég segði það myndi fólk samt vera engu nær um hvað hrærist í hausnum mínum, því ég veit það ekki einu sinni sjálf.
Ég var með Emil á hlemmi um daginn þegar ég hitti stelpu sem heitir Auja (glöggir lesendur munu eflaust kannast við hana sem stelpuna sem kallaði mig belju :p). Við heilsuðumst, og stóum svo vandræðaleg smá stund. Þá segir hún: "Þetta er ótrúlega óþægilegt! Ég þekki ykkur eiginlega ekkert, þið þekkið mig eiginlega ekkert, og við höfum ekkert að segja við hvort annað, en samt stöndum við hér". Þetta braut endanlega ísinn fyrir mér, því ég fyrir mitt leyti var einmitt að hugsa "úff, hvað á ég eiginlega að segja, ég þekki þessa stelpu ekkert....". Svo tókum við tvær sama strætó og spjölluðum um heima og geima.
Maður verður bara að sætta sig við að maður veit ekki rassgat um fólkið í kringum mann. Ég get ekki vitað fyrir víst hvað róninn á lækjartorgi er að hugsa, og ég get ekki vitað fyrir víst hvað systir mín er að hugsa, þótt ég hafi þekkt hana frá því ég fæddist. Sumt er sannleikur, sumt er lygi, sumt er ýkjur, sumu halda manneskjur út af fyrir sig og sumt segja manneskjur og meina það einn daginn, en hafa svo skipt um skoðun daginn eftir. Það er hægt að túlka eitt orð á 300 mismunandi vegu, allt eftir því hvernig dag móttakandinn hefur átt. Það er erfitt til þess að hugsa að enginn skilur mig til fulls og ég skil engan. Það eina sem maður sér er fronturinn.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home