þriðjudagur, mars 02, 2004

The pathological liar

Blóðþrýstingur minn fór upp úr öllu valdi í dag. Ég flutti nefnilega ræðu. Þetta var ekkert mikilvæg ræða, en náði engu að síður að koma líkamsstarfsemi minni í algera óreglu. Ég átti að flytja ræðu um "framtíð mína - draumastarfið", sem hluti af lífsleikniprógramminu. Mér fannst þetta alltaf frekar súrt verkefni, því ég er svo gersamlega glórulaus hvað framtíð mína varðar að ég stefni í að verða Drottning Eilífðarstúdentanna. Nei, nú ýki ég kannski, ég er nú bara í 3. bekk, óreyndur "nýnemi" (lesist busi), og hef því nægan tíma framundan til að demba mér í alvöru lífsins. En kjarni málsins er að eins og er hef ég ekki græna glóru um hvað draumastarfið er. Ég ákvað því einfaldlega að stíga skrefið til fulls, og í stað þess að bulla upp eitthvað semi-rökrétt og flytja það af hálfum hug míns vitræna sjálfs ákvað ég að bulla upp eitthvað algerlega órökrétt og flytja það af heilum hug míns óvitræna (er það annars orð?) sjálfs (er þetta of flókin setning.... ég held varla í við sjálfa mig). Ég sagðist því þrá það eitt að semja tónlist fyrir tölvuleiki, lýsti tölvuleikjatónlist sem hinu æðsta listformi og kallaði hana ('bein tilvitnun') "Flóðgátt fyrir takmarkalausa sköpunargleði" ('tilvitnun lýkur'). Það skrýtnasta er að ég fékk 100% fyrir rök!?!
Ég fékk fínustu einkunn fyrir þetta en hvað sem því líður varð hjartað á mér fyrir alvarlegri röskun. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég sé með dálitla (já, dálitla) fóbíu fyrir að tala fyrir framan áhorfendur. Ætli ég fái ekki taugaáfall þegar leikritið verður frumsýnt......
Daninn hefur haft samband! Hún heitir Camille, hefur gaman af íþróttum og hlustar á Brian Adams og Michael Jackson. Ég mun búa hjá henni þegar við förum til Danmerkur, og hún er búin að senda mér þrjú bréf.... mér líður eins og algerum kúk því ég var að svara fyrst núna... ég bara hef ekki minnstu hugmynd um hvað ég á að segja við hana. Ég ætlaði upprunalega að segja eitthvað eins og að ég væri Íslandsmeistari í Boccia, hefði óbilandi áhuga á bifvélavirkjun eða safnaði blýöntum frá mismunandi löndum. Það hefði hinsvegar getað komið mér í bobba, ef ég hefði t.a.m. lent hjá einhverri rosalegri bocciaspilandi, bifvélavirkjandi blýantssafnarafjölskyldu. Þá hefði ég þurft að feika matareitrun eða flýja, eða taka erfiða kostinn, roðna ótrúlega mikið og segja. "Undskyld, jeg har løjet. Jeg kan slet ikke spille boccia, jeg er ikke lidt interesseret i biler og jeg bruger altid en pen". Ég hefði því aðeins valdið vonbrigðum, eða verið lamin. En þegar ég get ekki bullað upp einhvern veruleika, eins og ég gerði í ræðunni (lesist ofar í færslu) hef ég ekki hugmynd um hvað ég á að segja....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|