Þórbergur
Jæja, nú er ég stoltur eigandi hakkýsakk bolta. Hann var keyptur á götumarkaði úti í Danmörku. Hann heitir Þórbergur í höfuðið á Þórbergi Þórðarsyni sem skrifaði Ofvitann. Hann er upplitaður, skítugur og linur og mér þykir afskaplega vænt um hann.
Í kjölfarið af klófestingu Þórbergs hef ég svo ákveðið að stofna hakkýsakk klúbb. Hann er fyrir fólk eins og mig sem er ömurlegt í hakkýsakk en nýtur þess engu að síður að gera sig að fíflum. Hulda er meðstofnandi, en auk þess höfum við fengið Önnu og Emil til liðs við okkur, enn sem komið er.
Við ætlum svo að finna okkur einn af þessum íþróttamönnum-sem-hafa-lagt-skóna-á-hilluna-sökum-hörmulegs-atviks-í-fornri-frægð sem svo oft hafa lykilhlutverki að gegna í Disney-myndum. Þetta verður sem sagt fyrrverandi atvinnumaður í hakkýsakk sem segir hluti eins og "I promised myself never to play again, not after what happened to Bobby" en vaknar á ný eftir að hann sér eldmóðinn í augum okkar. Þessi maður mun svo koma okkur á kortið og sjá til þess að við yfirvinnum allar hindranir á vegi okkar, þar á meðal grimma, Þýska hakkýsakk-landsliðið sem sjá rautt yfir frjálslyndu og hamingjusömu fólki eins og okkur. Þeir munu svo að sjálfsögðu líta á okkur sem jafningja eftir að við vinnum heimsmeistaramótið. Þetta verður ALVEG eins og í bíómyndunum! Hver vill vera með?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home