sunnudagur, maí 20, 2007

Meðalmennskan

Íslendingar vilja allir verða mikilmenni. Það virðist vera brennt í sálir landans, við hliðina á hugtakinu ,,Íslandsvinur" sem allir hata en aldrei deyr. Sköpunargáfan er dýrkuð eins og gyðja og sé hún á annað borð til staðar er ekki vit í öðru en að bera hana á torg fyrir land og þjóð. Barist er um þessi örfáu sæti í Listaháskóla Íslands, en sjúkrahús landsins eru undirmönnuð. Bæði er jafn ábatasamt, sértu meðalmaður að hæfileikum eins og flestir aðrir, en hugtök eins og "passjón", "glamúr" og að "meika það" eru ekki viðloðandi frama í hjúkrunargeiranum.

Hér áður fyrr braust sköpunargleði meðalmannsins út í tómstundaiðju. Listaverkin voru heimasaumaðar barnasængur með flúrsaumi, útskornir trélistar, stöku málverk á vegg og stafli af teikningum ofan í skúffu. Tónverk voru samin fyrir mannamót, eða fyrir háttatíma barna. Hver maður átti sköpunargáfu sína fyrir eigið hjarta. Engan dreymdi um að lifa á listinni, og gerði einhver það, þá var það vegna þess að hann skaraði fram úr, sköpunargáfa hans var slík að hún átti erindi við aðra.

Nú er skapað fyrir markað og misgóðum verkum misgóðra listamanna er otað að manni úr öllum áttum. Æ fleiri ganga með þann draum í maganum að geta lifað á listinni, þrátt fyrir að draumurinn eigi sér ef til vill ekki dýpri rætur en að vilja vera gjaldgengur í hin ýmsu VIP herbergi. Æ fleiri sækja í listnám en líta niður á hagnýtt (ja, eða allskostar óhagnýtt) bóknám, vilja heldur eltast við drauminn um mikilmennsku en þann drauminn sem lýtur að því að geta séð eigin börnum farborða, eða bakað pönnukökur.

Ég hef lengi lumað á þeim þráláta draum í maganum að verða mikilmenni. Ég reyni að gefa honum sem minnstan gaum svona í daglegu lífi, en öðru hverju skýtur hann upp kollinum: Æ, jújú, ég er nú frekar drátthög, ætti ég kannski að fara í hönnun í amsterdam? Eða bara stofna hljómsveit eða eitthvað. Ég sveif á rósrauðu draumóraskýi í nokkra daga eftir að ég frétti að ég hefði fengið 9,5 á stúdentsprófi í íslenskri ritgerð, þarna hafði gullni vegurinn opnast til frægðar og frama sem rithöfundur. Ég ætti að drífa mig í megrun strax, kaupa mér týpugleraugu og hætta að setja mjólk út í kaffið mitt. Hinir væntanlegu ritsigrar mínir voru aukaatriði, aftur var það ímyndin og almenningsálitið sem lokkaði mig. Um leið og ég hafði áttað mig á því rankaði ég við mér hið snarasta, og sneri aftur til fyrri áætlana, að verða íslenskukennari.

Ef til vill mun eitthvað sem ég skapa eiga erindi við aðra, líklega þó ekki. Ég held hinsvegar að það hafi verið eitt af mínum mestu gæfusporum að snúa baki við draumnum um mikilmennsku. Nú horfi ég fram á veginn með tilhlökkunarkitl í maganum, í stað þess að finna bara til kvíða og vanmáttarkenndar. Ég ætla að láta VIP herbergi þessa heims lönd og leið, baka lummur á sunnudögum og hlaða niður börnum. Kannski verð ég ekki hönnuður í amsterdam, en ég ætla allavegana að sauma kjóla á dætur mínar og eiga kannski nokkrar teikningar ofan í skúffu. Það þykir mér alveg nóg.

11 Comments:

At 1:15 e.h., Blogger Harmsaga said...

Sammála. Þú ert ansi góð að skrifa það sem mér finnst. Ég get kannski fengið þig til að skrifa fullt af bókum undir mínu nafni. Ég verð rík og fræg meðan þú lifir í rósemd. Allir vinna...

 
At 3:01 e.h., Blogger Sandra said...

þetta þótti mér einkar falleg færsla

listsköpun kemur sér líka vel þegar gefa þarf gjafir sem mega ekki kosta mikið, mamma mín nýtir sér það allavega grimmt.

 
At 11:21 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta þykir mér skynsamt lífsviðhorf.
Ritfærni nýtist líka einstaklega vel við íslenskukennslu, sem er jafnvel göfugra starf en að semja póstmódernískar sögur um firringu.

 
At 4:15 e.h., Blogger Júlía Ara. said...

Mér þykir ákaflega skemmtilegt að sjá að þú ert lifnuð við. Svona internetlega séð.

Júlía a

 
At 5:36 e.h., Blogger Bastarður Víkinga said...

Það er ekkert göfugra en að semja póstmódernískar sögur um firringu.

Ekki einu sinni að bjarga kettlingum úr trjám.

 
At 5:48 e.h., Blogger Sandra said...

það er firring að póstmóderníska sögur um saminn göfugleika

 
At 6:39 e.h., Blogger Klara said...

það er póstmódernismi að saga firringu um göfugan samning.

 
At 7:05 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

æi, pff þið þarna. Ég var að reyna að vera málefnaleg.

 
At 8:50 e.h., Blogger Unknown said...

ég er ánægð með þig! Enda virðumst við hafa líkar lífsskoðanir en nokkurn grunaði. Sjáumst í Íslenskudeildinni í MR....þ.e.a.s eftir spánardvölina þína
(nei annars, við hittumst örugglega fyrst í íslenskudeild HÍ)
(nei annars, örugglega fyrst blidnafullar á Kultura)

 
At 10:06 f.h., Blogger Klara said...

hmmm... sumir eru greinilega alveg BLIDNAfullir

 
At 5:57 e.h., Blogger gaaraabagara said...

þessi fær 9.7 frá mér.

 

Skrifa ummæli

<< Home

|