mánudagur, desember 29, 2003

Fordómar

Ég lenti í frekar krassandi fordómaumræðu fyrir stuttu. Vinkona mömmu minnar (sem hefur reyndar verið þekkt fyrir að vera frekar yfirlýsingaglöð - sem dæmi má nefna að þegar ég var við það að vera hækkuð um bekk sagði hún mömmu fyrir framan mig, 9 ára barnið, að ég myndi pottþétt aldrei bera þess bætur, félagslega) staðhæfði að innan nokkurra ára þá myndu Íslendingar gera uppreisn gegn innflytjendum, vegna þess hversu ört íslensk menning færi dofnandi. Þetta finnst mér reyndar soldið fáránleg tilhugsun, því í fyrsta lagi eru það ekki innflytjendurnir sem eru að valda hvað mestri alþjóðavæðingu í íslensku samfélagi, ég sé ekki betur en að það séu erlendir miðlar, lesmiðlar, sjónvarp, kvikmyndir, svo ekki sé minnst á matinn og varninginn! Maður getur ekki beinlínis sagt að Íslensk menning hafi orðið fyrir sérlega miklum tælenskum áhrifum, né pólskum, og þannig mætti lengi telja. Þannig held ég varla að brjálaður íslenskur múgur væri svo firrtur öllu raunsæi að rísa upp gegn þessum þjóðfélagshóp vegna þess hversu mörg ungmenni sletta ensku.
En þessi staðhæfing leiddi til nokkuð heitra umræða. Það yrði nokkuð langt blogg að rekja þær allar hérna en það sem mér fannst merkilegast var hversu margir hófu setningar sínar á "ég er ekki rasisti fyrir að segja þetta en.....". Það eru allir ótrúlega hræddir við það að vera álitnir rasistar. Ein stelpa sem ég þekki býr úti í London og hún sagðist hafa tekið eftir því að þegar hún gekk um göturnar og mætti einhverjum af öðrum kynstofni þá vék hún alltaf. Hún gerði það án þess að hugsa. Svo tók hún allt í einu eftir þessu og ákvað að prufa að víkja ekki. Þann daginn lenti hún í því margsinnis að labba næstum á svertingja. Því sagan hefur sett allt í svo miklar öfgar. Hvítir menn völtuðu yfir svertingjana áður fyrr, og nú vilja þeir ólmir sanna að þeir séu ekki eins, ekki sömu níðingarnir og forfeður þeirra. Svertingjar voru barðir niður og niðurlægðir og nú einkennir þá eitthvað "þú valtar sko ekkert yfir mig!" viðhorf. En allt er þetta rasismi.
Rasismi er ekki bara það að lemja einhvern bara út á litarhátt. Rasismi er einfaldlega að setja einhverja manneskju í ákveðinn kassa eftir litarhætti og hegða sér öðruvísi gagnvart henni en öðrum. Rasismi er ekki bara það að ráða ekki svarta (ég tek svarta sem dæmi, en þetta á við um öll þjóðarbrot) í vinnu, heldur einnig að stunda jákvæða mismunun. Rasismi er það að þora ekki að horfa í augun á svarta manninum vegna þess að maður óttast að hann misskilji það sem rasisma. Rasismi er sú staðreynd að það er til hellingur af gamanþáttum um heimska, feita, hvíta manninn, því hann er sá eini sem gera má grín að án þess að vera tekinn í gegn fyrir mismunun gegn þjóðfélagshópum.
Við gerum grín að okkur sjálfum. Svertingjar gera eflaust grín að sjálfum sér. Svertingjar gera pottþétt grín að okkur. Felst því ekki ákveðinn rasismi í því að mega ekki gera grín að þeim? Þá er með því verið að segja að þeir séu eitthvað öðru vísi. Ég er ekki rasisti, því ég aðlaga ekki viðmót mitt gagnvart manneskju eftir litnum á húðinni. En ég veit ekki hvernig þetta verður þegar ég kemst út í hinn stóra heim.

--------------------------------------------------

Anyone have an opinion?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|