þriðjudagur, desember 30, 2003

Vaknaði í morgun, frekar sjúskuð eftir að hafa dreymt pöddur í alla nótt. Fyrstu 20 vökumínúturnar var ég ekki enn alveg búin að jafna mig og haldin ofsóknarbrjálæði sá ég pöddur í hverju horni. En ég lét ekkert stöðva mig og náði að jafna mig, svona að mestu.... Ég gekk inn í eldhús og tók þar nokkra danstakta við undirspil tónlistar foreldra minna. Þar sem þetta var barrokktónlist eftir Bach fattaði ég fljótt hversu hjákátleg ég hlyti að vera hætti ég þessu hið snarasta. Svo fékk ég mér morgunmat.
Ég eignaðist vin í dag. Þannig séð ekki nýjan vin, en ég fékk það staðfest að viðkomandi er vinur minn, ekki bara einhver náungi sem maður á það til að rekast á og heilsa. Alltaf skemmtilegt.
Talandi um vini, þá hef ég mikið verið að pæla í vinsældum og kunningsemi. Ég er engan veginn týpa sem reynir sífellt að falla í kramið til þess eins að hafa hærra álit á sjálfri mér (at least, I'd like to think I'm not). En það er náttúrulega alltaf gaman að kynnast nýju fólki og eignast nýja vini. Þetta hefur verið mikið krossför hjá mér eftir að ég byrjaði í MR, því þegar maður kemur úr sérlega andfélagslegum 45 nemenda skóla þá er ótrúlegt hvað það getur glatt mann mikið að þekkja helling af fólki á lækjartorgi.
Ég upplifði Landakot svona: (án allrar móðgunar við allt skemmtilega fólkið sem þar var einnig, og án þess að ég sé að hallmæla þeim sem höfðu virkilega gaman af því að vera á þessum stað)
Í bekknum okkar voru 20 krakkar. Þar var andrúmsloftið mjög fínt, svona að mestu, en klíkuskapur var mjög algengur. Það get ég svosem ekkert dæmt, ég tók alveg jafn mikinn þátt í því og allir hinir. Þannig var bekkjarsamfélagið bara. Hinir bekkirnir voru frekar mikið undan seilingar. Maður átti ekkert sameiginlegt með þessum krökkum, því einu samfélögin sem virkilega mynduðust voru bekkirnir. Það var ekkert leikfélag, enginn kór, engin skreytinganefnd, ekkert til þess fallið að efla samkennd nemenda. Ef maður heilsaði aðila úr öðrum bekkjum á götu (ef hann var ekki einn af þessum nokkru vinum sem maður átti í þeim bekkjum) þá roðnaði viðkomandi og leit niður. Ótrúlega fyndið að stríða þessu fólki!
Núna er ég alveg ótrúlega þakklát fyrir að hafa möguleika á að kynnast 813 manneskjum (!!!), í stað 50. Það er náttúrulega frekar lítill möguleiki á að ég nái að kynnast öllum þessum manneskjum, en bara að GETA kynnst svo mörgum finnst mér alveg stórkostlegt. Ég vildi að sólarhringurinn væri lengri, því mig langar að þekkja hvern og einn einstakling, að minnsta kosti með nafni. Þetta eru dálítið hippalegar pælingar "hver einstaklingur er þess virði að þekkja" en að hugsa sér! Það eru 6 milljarðar af fólki í heiminum. Að hugsa sér hvers við förum á mis við! Á stundum sem þessum finnst mér það vera hrein tímasóun að sitja fyrir framan tölvuna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|