laugardagur, janúar 17, 2004

Ég hata

Ég hata efnishyggju. Ég hata þá staðreynd að það sé svo mikið sem MÖGULEGT að láta sér detta það í hug að einkarekið heilbrigðiskerfi sé það rétta í stöðunni. Ísland er að verða æ líkara Bandaríkjunum, menningin, hugsunarhátturinn, neyslan, stjórnkerfið. Það er eitt að hugsa stjórnkerfið út frá því að hver sé sinnar gæfu smiður en allt, ALLT annað að hafa samfélagið svo óheft/spillt að auður landsins færist á æ færri hendur. Að það sé á annað borð hægt að hamstra íslenskan atvinnumarkað svo mikið að maður geti ráðið lífsskilyrðum mörg hundruð manns. Og að einkareka spítalana. Viljum við í alvöru vera eins og í Bandaríkjunum, þar sem fátæklingum er úthýst vegna þess að þeir höfðu ekki efni á tryggingunum? Með þessari þróun er verið að viðurkenna að lífið sjálft ráðist ekki af neinu öðru en peningum. Með þessari þróun er verið að festa í sessi þann hugsunarhátt að því hærri launatékka sem þú hafir, því meiri rétt eigir þú á að lifa.
Vera má að hugsunarháttur minn sé að nokkru leyti litaður af stöðu minni í lífinu. Ég á pabba sem hefur greinst með krabbamein á alvarlegasta stigi (there, I said it) og það sér hver heilvita maður að lífið er nógu erfitt án þess að maður sökkvi í skuldasúpu í leiðinni. Meðferðin sem hann gengst undir kostar mörg hundruð þúsund krónur, ef ekki milljónir. Þetta er ekki eitthvað sem við höfum ráð á. Þess vegna er svo gott að vita til þess að öll þjóðin leggur í púkk til að veita þá þjónustu sem einstaklingar eins og pabbi, og svo margir aðrir þurfa. Þrátt fyrir einhvern pirring sem ég mun eflaust upplifa þegar ég berst við að láta enda ná saman, þá mun ég vera nokkuð sátt við að afhenda 40% af mínum launaseðli til að greiða fyrir eitthvað sem ég eða einhver aðstandenda minna mun kannski þurfa á lífsleiðinni.
Mér finnst altént ekki rökrétt að þeir ríku geti fengið að valta yfir þá ekki-eins-ríku, því það geta ekki allir verið ríkir, og til að sumir geti verið ríkir þurfa aðrir að vera fátækir. Það voru ekki bara þeir ríku sem sáu til þess að koma þingmönnunum á Alþingi með atkvæði sínu.
Ef tryggingasamningurinn gengur í gegn verð ég sennilega nokkuð óttaslegin. Þar sem pabbi hefur greinst með svona alvarlegan sjúkdóm eru góðar líkur á að ég fái ekki sjúkdómatryggingu. Hvern djöfulinn á ég þá að gera ef ég veikist?
Kannski við ættum líka að banna þeim efnaminnu að nota strætó. Þetta er jú líka þjónusta sem þeir lögðu ekki eins mikið í og þeir sem áttu meira aflögu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|