mánudagur, janúar 19, 2004

Hinar óskráðu reglur samfélagsins

Getur einhver tekið mig í tíma í lífsleikni? Almennilegan tíma, ekki eitthvað bull um eitthvað tré í gjá sem á að takna sorgarviðbrögð í allt of einfaldri mynd. Ég á við ekta lífsleikni. Bara boðið mér heim til sín í tesopa (eða mjólkursopa, þar sem ég drekk ekki te) og sagt mér hvernig heimurinn virkar. Ég kann ekki á allt þetta óskráða sem maður á að fylgja í samskiptum sínum við aðra.
Forsaga málsins er: Ónefndur aðili (hann veit hver hann er, en les að öllum líkindum ekki bloggið mitt, hann er of upptekinn við að troða prikum upp í rassgatið á sér. Nei, fyrirgefið, þetta var biturt) hélt að ég væri hrifin af honum. Ég náði ekki að svara fyrr en hann var búinn að bombarda á mig vinaafsökuninni (mér þykir bara svo vænt um þig sem vin, ég vil ekki spilla því, blablabla - þetta rugl sem allir hafa bæði notað og/eða heyrt minnst einu sinni og er til þess gert að friða samviskuna). Eftir það tókst mér loks að stynja upp að ég væri hvort eð er ekkert hrifin af honum en þá hljómaði það bara eins og aumkunarverð viðleitni til að halda í smá snefil af stolti. Eftir þetta forðaðist hann mig eftir fremsta megni þangað til að loks ég talaði við hann og þá virtist aftur allt í ágætis standi. Svo fer hann að dreifa því til fólks að ég hafi verið hrifin af honum, sem ég var ekki, og þá verð ég náttúrulega frekar pirruð. Þannig að ég ákveð að vera bara hreinskilin við hann (á MSN - stupid, stupid, STUPID) og segja eins og er að mér finnist hann vera frábær náungi og þar af leiðandi nenni ég ekki að vera að ritskoða allt sem ég geri og segi við hann af ótta við að hann mistúlki eitthvað. Þá verður drengurinn eitthvað voða pirraður, segir mér að "chilla á því", hlær (eins skýrt og hægt er að hlæja á MSN) alveg ótrúlega mikið, verður svo alltíeinu ótrúlega leiðinlegur, hreytir í mig fúkyrðum og blokkar mig. Það eina sem ég er að spá er: "hefði ég bara átt að halda áfram að ritskoða?"
Þessi strákur getur verið svo mikill wanker stundum, það er eins og hann hafi þrjátíuþúsund mismunandi persónuleika og hann svissar svo hratt að ég hef ekki við að skilja hið minnsta. Ég er svo einföld að trúa því að allir eigi sér sínar góðu hliðar, og það sé eitthvað við hverja manneskju sem er þess virði að vingast við hana. Þess vegna er það algjört kjaftshögg að lenda í því, eins og ég lendi oft í, að vera sett algerlega á ís af einhverjum ástæðum. Og þá er ég ekki endilega að tala um þennan strák heldur almennt fólk sem ég þekki. Það eru svo ótrúlega margir sem forðast hreinskilni eins og heitan eldinn. Ég er ekki að meina að maður festi sig við manneskjuna eins og marglytta á fæti óheppins baðstrandargests, og verði meðvirkur og uppáþrengjandi. En er ekki allt í lagi að segja fólki þegar manni þykir mikið til þess koma?
Önnur óskráð regla sem ég kann engan veginn á er koss-á-kinn-reglan. Er til einhver regla sem segir til um það hvora hliðina maður á að fara á þegar maður kyssir aðstandanda eða vin sinn á kinnina? Ég lendi otar en ekki í einhverju svona 3-centímetra frá því að kyssast á munninn, skipta um hlið, æ úpps aftur, uhh, knúsar manneskuna vandræðalega og er svo bara niðurlútur og kinnrjóður. æ, ég ýki reyndar, maður kemst alveg yfir svona aðstæður, en er ekki til einhver einföld regla til að forðast að lenda í þessari stöðu?

Þetta blogg er tileinkað Önnu Margréti minni, því hún lætur sér það bara vel líka þegar ég segi henni hversu ótrúlega vænt mér þyki um hana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|