Ég virðist halda að allur svefn undir meðalsvefnþörf sé jafn lítill. Fyrir mér verður maður alveg jafn þreyttur eftir 7 tíma svefn og 5 tíma svefn. Þegar klukkan er orðin aðeins of margt, og allt stefnir í að ég nái ekki áttatímasvefninum þá gef ég bara skít í svefninn og vaki til tvö við að breinstorma. Ég er að reyna að mynda form í huganum á mér, því það er bara ein teikning sem mig langar að gera, teikningin, en ég virðist ekki geta komið henni niður á blað, hún læðist bara mjög óskýrt um í hausnum á mér, og hleypir engum öðrum hugmyndum að. Ég er því búin að gefast upp á að teikna, því það vekur bara hjá mér pirring og vanmetakennd. Ég er að spá í að sanka að mér allskyns teiknibókum og reyna að yfirbuga þennan litla djöful.
Ég hef ákveðið að gerast grænmetisæta. Einhverjir munu eflaust líta á þetta sem einhvern wannabeisma hjá mér en ég sat bara inni í eldhúsi í fyrradag og fattaði allt í einu að það eru engin rök fyrir kjötáti. Það er bara ávani, ég gæti þrifist og dafnað ágætlega án þess. Ég dæmi samt alls ekki þá sem borða kjöt, þetta er bara mitt val og mín stefna. Ég ætla ekki einu sinni að kalla þetta lífsstíl, því ég trúi ekki á þetta "þú ert það sem þú borðar" kjaftæði, maður mótast af skoðunum sínum og tilfinningum, ekki því sem maður innbyrðir til að halda sér á lífi. Ég ætla samt að leyfa mér að borða kjúkling og fisk svona fyrst um sinn, taka þetta í skrefum svo ég eigi minna á hættu að "springa" á heitinu, auk þess sem ég kann ekki alveg á þær leiðir sem til eru til að öðlast prótein, ég þarf að kynna mér hnetur og baunir aðeins betur áður en ég stíg skrefið til fulls. Svo verðum ég og systir mín einar í kotinu í nokkurn tíma á meðan mamma og pabbi eru í Svíþjóð, og sem fyrrverandi grænmetisæta er hún nokkuð lunkin við gerð grænmetisrétta. Svo þetta ætti alveg að ganga upp hjá mér.
Ég fór á Love Actually áðan, með Önnu, Huldu og Jónatan. Þar sem stelpur voru í meirihluta fengum við að ráða myndinni, en ég held að Jónatan hafi verið nokkuð sáttur, hann og Hulda voru altént í ágætis fíling :p Myndin var ekkert leiklistarlegt meistarastykki, enda fjölmargar sögur í einni og því takmarkað hægt að fara ofan í persónusköpun. En hún var ferlega krúttleg, og ég skammast mín ægilega fyrir að segja þetta, en maður var hálfklökkur á köflum. Æi, maður er nú bara mannlegur
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home