miðvikudagur, janúar 21, 2004

Grrrrrrr

Ímyndið ykkur að þið hafið farið snemma að sofa eitt kvöldið, og hugsað makindalega til þess að vakna hress og kát(ur) klukkan 8:20 morguninn eftir eftir fyrsta nægilega nætursvefninn sem þið hafið upplifað MJÖG lengi. Þetta hljómar nokkuð þægilega, ekki satt? Nei! Það er nefnilega segin saga að þegar maður hugsar sér gott til glóðarinnar varðandi eitthvað, þá munu plön mans falla glæsilega til grunna. Ég vaknaði í gærmorgun við það að mamma kom inn í herbergið mitt (hvað var hún að gera inni í herberginu mínu?), rakst í eitthvað svo það datt í gólfið (bang-klang-dink-dink-dink), öskraði ("ah, soddit!"), kveikti ljósið (augnsteinar mínir minnka svo mikið að þeir verða ekki greinanlegir mannlegu auga) og hóf að setja saman símann minn, sem hafði dottið í sundur við átökin. Þetta var einum og hálfum tíma áður en ég átti að vakna. Ég afræð bara að reyna að sofna aftur, en mamma afræður hinsvegar að fyrst ég sé á annað borð vöknuð, þá sé tilvalið að hefja samræður um viðtalstíma dönskukennarans míns. Ég urra á hana að hann sé milli hálfþrjú og þrjú og ætla svo að reyna að sofna aftur, enn neeeeei, pabbi heldur að ég sé ekki nógu ábyrgðarfull til að stilla klukkuna, svo hann kemur og ætlar að vekja mig. Eftir þetta get ég ekki sofnað aftur og pirringurinn mókir í kringum mig eins og eiturský.
En þetta var gærdagurinn. Í dag er dagur nýrra vona, nýrra ævintýra. Og að sitja heima, hringdi mig inn veika í morgun því ég held að þessir stanslausu 13 tíma skóla-funda-æfingadagar hafi gengið lítið eitt of nærri mér. Ég svaf til hádegis, sem var aaaaafar indælt. Á neikvæðu hliðina verð ég hinsvegar bráðlega að hefjast handa við eitt stykki ritgerð á spænsku og annað stykki ritgerð á íslensku, ég á að skila báðum á morgun, og á báðum hef ég ekki byrjað.

------------------------------------

Í jarðfræðitíma í gær sagði hún Ólöf okkur eitt það óhugnanlegasta sem ég hef heyrt. Þegar maður hefur verið í kafi aðeins of lengi fer líkaminn að finna fyrir falskri vellíðan og gleyma því að hann sé að drukkna. Þannig var til dæmis dæmi um einn dreng sem drukknaði í Hótel-Loftleiðalauginni fyrir einhverjum árum, það er talið að hann hafi einfaldlega verið í köfunarkeppni með vinum sínum og farið yfir þetta stig, og því ekki haft rænu á því að koma sér úr kafinu. Þetta er einnig ástæðan fyrir því að drukknandi manneskja ræðst stundum á bjargvætt sinn, því hann truflar vellíðunarástandið. Þetta fékk mig bara til að pæla, rosalega er líkaminn falskur. Það hefur gerst að mjög drukkið fólk klæðir sig úr því því er svo heitt, þótt það sé skítkalt úti, því áfengið veitir þeim falskan hita. Mér finnst þetta rosalega óhugnanlegt því maður treystir svo oft algjörlega í blindni á eigin skilningarvit.
Hinsvegar gerir þetta líka að verkum að ef maður drukknar þá deyr maður í það minnsta alveg hræðslu- og sársaukalaust

----------------------------------------

P.S. Ef einhver hefur einhver áhugaverð rök fyrir því hvers vegna samkynhneigðir ættu eða ættu ekki að fá að giftast og eignast börn, þá væri frábært að fá comment um efnið. Ég á nefnilega að skila rökfærsluritgerð fyrir morgundaginn um efnið, þar sem ég geri ráð fyrir rökum með jafnt sem og á móti. Þannig að allar pælingar væru vel þegnar, sérstaklega mótrök því mig skortir aðeins á þau, ég er svo ótrúlega hlynnt þessu sjálf.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|