föstudagur, janúar 16, 2004

Ég er komin með nýja rithönd sem minnir töluvert á Lord of the Rings skriftina. Ég kann ekki á myndakerfið á þessari síðu og get því ekkert fram fært, máli mínu til stuðnings en áhugasamir geta leitað til mín um ritdæmi sem ég stefni á að hafa í fórum mínum. Ég ætla að ýta því á undan mér í leikfangabarnavagni og kalla það Hákon.
Þetta er aðeins örstutt dæmi um hversu hátt minn fleygur flýgur þessa stundina, en eins og flugdreka hef ég fleyginn í bandi, ólíkt skynseminni sem virðist flogin á braut.
Anna Margrét spurði mig áðan á MSN hvað væri að frétta. Ég tók hana á orðinu og tilkynnti henni að ég væri með eilítinn hausverk, hárið væri í einni flókabendu og mig klæjaði í eyrað, en ég væri nýbúin að borða rjómatertu og því nokkuð vel haldin. Þetta er mín leið til að segja kurteisishjali stríð á hendur. Og, að sjálfsögðu að fá útrás fyrir einhvern óróa sem býr í mér, en það er annað mál. Málið er að fólk spyr mann alltaf hvernig maður hafi það, hvað sé að frétta eða hvað sé að gerast hjá manni þessa dagana, en vill svo ekkert heyra svarið. Ég hef ákveðið að næsti aðili sem spyr mig hvað ég segi gott fái að heyra eftirfarandi svar:
"Jæja, ég segi svosum allt sæmilegt, fékk að meðaleinkunn 8,3 á jólaprófunum en ég sef samt eiginlega bara í skólanum, sérstaklega í Eðlisfræði. Mér finnst eðlisfræði leiðinleg og ég stefni á heimsyfirráð, og ég ætla að láta senda alla eðlisfræðinga til nýja Sjálands, því djöfull hlýtur eðlisfræði að vera fyndin með nýsjálenskum hreim. Mig klæjar dálítið í vinstri nösina og er með dálítinn varaþurrk, en það stendur allt til bóta því ég ætla að fara í lyfju og kaupa mér Labello- á allra vörum (á þessum tímapunkti ætla ég að blikka viðmælandann samsærislega og gefa honum/henni olnbogaskot). Annað af mér að frétta er að ég er hætt með kærastanum mínum, ég gruna hann um að hafa bara verið að nota mig. Hann hætti allavegana með mér strax eftir að hafa sofið hjá mér. Ég held að ég sé ólétt. Hvað segir þú annars gott?" Bara til að sjá svipinn á viðkomandi vesaling sem gekk í gildruna.
Afhverju ætli það sé, að í menningu mannlegs samfelags séu til svona margar spurningar sem fólk vill ekkert svar við? Þetta er eitt af fyrstu spurningunum sem maður lærir í tungumálanámi, hvað segir þú? - como estás? - How are you? - Hvad siger du? (Ég læt hér staðar numi?, því ég kann ekki fleiri tungumál).

Ég fjarlægði söguna um uppruna Benna því hún vakti hörð viðbrögð gagnrýnenda og þótti sýna fordóma í garð Guatemala, Úsbekistan, hávaxinna og rauðhærðra. Þetta sýnir glögglega hversu illa mér ferst það stundum úr hendi að segja mína meiningu, enda var þessi skilningur engan vegin ætlunin. Guatemala er eitt þeirra landa sem mig langar að sjá einhvern daginn, rautt hár er ótrúlega fallegt (Bjarney getur staðfest aðdáun mína) og mér finnst oftast alveg ótrúlega sjarmerandi þegar strákar eru hávaxnir. Mér finnst fátt fallegra en sláni sem slagar upp í 3 metra og hefur takmarkaða stjórn á eigin útlimum. Ég er ekki að tala í kaldhæðni, ég hef mjög fastmótaðan smekk á karlpeningnum

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

|