stefnuleysi
Kaldhæðnislegt að á eina deginum sem ég fæ frí í leiklistinni, virðast allir vera að gera eitthvað annað. Þetta er eitt af þessum kvöldum sem maður botnar hvorki upp né niður í stöðu sinni... þeir sem hafa einhverntíma verið alveg virkilega, virkilega uppteknir til lengri eða skemmri tíma, skilja hvað ég á við. Daginn ádur hefur maður verið úti í 13 tíma án þess að stoppa, dagurinn eftir verður eins, en þessi eini litli dagur sem maður hefur ekkert að gera við og það setur mann algerlega úr jafnvægi. Maður er dottinn út úr allri sjónvarpsdagskrá, er næstum svangur en ekki samt alveg, næstum þreyttur en ekki samt alveg, og er algerlega laus við sköpunargáfu, því allan tíman hafa annirnar verið lagðar upp í hendurnar á manni og maður hefur einfaldlega orðið að bregðast við. Og það alsúrasta er, ég áttaði mig á þessari stöðu 10 mínútum eftir að tónleikar sem ég hafði ætlað mér að fara á, en hætt við sökum leiklistaræfingar, byrjuðu. Ég er ein af þessum óheppnu manneskjum sem fúnkerar ekki nema undir gífurlegri pressu, þegar ég hef helst ekki tíma til að sofa, og kann því engan veginn á frídaga.
Eins og fram kom, er ég einkar heiladauf þessa stundina og skapandi hugsun í algjöru lágmarki. Því ætla ég ekki að hafa þetta lengra, og forðast þar með að draga aðra með mér í svaðið. Hinsvegar lýsi ég áköf eftir einhverjum sem nennir að koma að gera eitthvað, hvað sem er
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home