föstudagur, ágúst 28, 2009

Píp

Yndislegt. Ég eyddi góðum hálftíma í dag í að reyta af mér brandarana í návist stráks sem er afskaplega sætur. Svo kem ég heim, lít í spegil og sé að ég er með augnblýant niður á hné, hár eins og reytt hæna og sósublett á úlpunni minni. Frábært að þrátt fyrir að fyrsta partý listaháskólans sé ekki fyrr en í kvöld, sé ég nú þegar búin að mastera að líta út eins og mesti haugurinn á svæðinu. Ætli næsta skref sé ekki að festa klósettpappír undir skónum mínum í kvöld, gyrða kjólinn ofan í nærbuxurnar, æla á barborðið á Jacobsen (klukkan ellefu) og fara á trúnó við allar fyrsta árs stelpurnar sem nenna að hlusta á mig lengur en fjórtán sekúndur. Mér hefur alltaf fundist heillandi að vera svona "afgerandi karakter", og það að vera á nokkurn hátt svöl virðist ekki ætla að liggja fyrir mér.

Takk fyrir að koma mér aftur niður á jörðina, alheimur. Virkilega. Takk.

|