þriðjudagur, október 30, 2007

¡Joder!



Ég var að horfa á þessa mynd áðan með hommavinum mínum. Nánar til tekið... ég álpaðist inn í stofu, og þeir mútuðu mér með kínamat. Tilboð sem ég gat ekki hafnað.
Númer eitt! Ég hef ekki séð svona mörg typpi í striklotu í langan tíma. Jú, æi, reyndar þegar við komumst að því að á næturnar erum við með 7 fríar klámrásir, hverja annari dónalegri (Við erum alveg að tala um plasthnefa í vagínu hérna. Plasthnefa! Vagínu! Djöfulsins!) En hitt hljómar áhrifaríkara.
Númer tvö! Þessi treiler gefur sko klárlega ekki til kynna hvað þessi mynd er dónaleg. Kallið mig íhaldssaman fávita, en eftir ákveðið marga rassa þá brestur bara eitthvað innra með mér.
Númer þrjú! Öllum hommavinum mínum fannst hún frábær. Það er æst fyndið, miðað við að hún er af svipuðum gæðastaðli og Not-another-teen-movie-15, og þeir eru allir þrítugir, tveir kennarar og einn læknir.

Fyrirgefið ef ég er ekki mitt vanalega, kalda, intellektúal sjálf. En það verður að taka það með í reikninginn að ég var að horfa á samkynhneigðu, óhefluðu útgáfuna af American Pie.

Svo þegar húllumhæinu var lokið, öllum aðalsöguhetjunum hafði tekist að láta dúndra sig í þann óæðri og svona, þá sagði ég, svona hálf í gríni: "úff, ég held að ég sé sködduð fyrir lífstíð". Þá horfðu þeir allir á mig eins og ég hefði hent eggi á gay-pride og brennt regnbogafánann. Svona kemur það manni í koll að vera laumutepra.

|

mánudagur, október 29, 2007

Dissoríented

Hvaða bölvaður fávitaskapur og endemis kjánalegheit eru það að breyta tímanum og láta mann ekki vita! Ég var rænd heilum klukkutíma af svefni í morgun, og allir opnunartímar í búðum hafa verið mjög á reiki síðustu daga. Svona er þetta, sama hvað ég reyni tekst mér fjandakornið aldrei að halda mér í takt við tímann.

|

sunnudagur, október 28, 2007

Stigagangur Örlaganna

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að stigagangurinn minn er mjög sorglegur staður. Með réttu ætti að nefna hann "El suspiro de la cucaracha", eða "Andvarp kakkalakkans" þar sem allt bendir til þess að þangað fari kakkalakkar til að deyja, einhver svona rómantískur hinsti áfangastaður fyrir þessar skelklæddu sálir. Í þessum annars mjög snyrtilega stigagangi er nefnilega yfirleitt að finna kakkalakka í andarslitrunum. Einnig virðist sem þeir geri þetta eftir einhverju ritúali. Stigagangurinn er alltaf þrifinn á þriðjudögum, og á hverjum miðvikudegi er mættur nýr kakkalakki, hvers lík liggur svo til sýnis í heila viku áður en ræstingakonan leggur hann til hinstu hvílu í sorptunnunni á horninu. Þetta hlýtur að vera með ráðum gert, enda ekki að undra, maður deyr jú bara einu sinni, og það væri bölvaður antíklæmax fyrir einhvern lakkann að fái bara einn til tvo daga á dánarbeðinu.

Persónulega fer þetta ekkert fyrir brjóstið á mér. En mikið vona ég að þeir ákveði ekki að flytja dánarstað sinn upp á fyrstu hæð, íbúð 1-B.

Hvílið í friði - ógeðin ykkar!

|

mánudagur, október 01, 2007

Viðtengingarháttur

¿Es verdad que nadie me eche de menos?

|