sunnudagur, maí 30, 2004

Fari það kolbölvað

Símar eru engan veginn mitt ákjósanlegasta samskiptaform. Ég reiði mig mjög mikið á nærveru manneskjunnar og fer því alveg í kerfi þegar ég neyðist til að nota símann.
Nýleg dæmi um þetta eru t.a.m.

Ólöf hringdi - ég ætlaði að spurja hana hvernig ferðalagið væri en endaði hinsvegar með því að lýsa yfir ótta mínum um velferð móður okkar.
Hringdi í Ragnhildi - ég ætlaði að spurja hana hvað hún hefði á prjónunum það síðdegi en krafðist þess síðan að fá að fara í fermingarveislu bróður hennar (blessunarlega náði ég að hafa hemil á mér og mun því ekki fara)
Hringdi í Jón Eðvald og sagðist vera óskaplega fegin að hann væri lifandi (mig dreymdi í nótt að hann væri dáinn) - erindið var að biðja um afnot af skrifaranum hans
Hringdi í Sögu, átti í mjög svo gagnvirkum samræðum við hana (þ.e.a.s. ég var ekki sú eina sem talaði frá mér allt vit á meðan Saga stundi þungan, mmaði og aahaði þrátt fyrir að hún væri spenntari fyrir að leggja kapal) en endaði engu að síður á því að biðja hana innilegrar afsökunar á trufluninni.

Hversvegna er ég svona ótrúlega taugaveikluð?? Ef ég væri ekki ég myndi mér finnast ég vera mjög svo fráhrindandi á stundum sem þessum.

Nú þarf ég bráðum að hringja í hana Kristbjörgu. Ég ætla að ígrunda mál mitt MJÖG vel til að hindra það að ég hringi og biðji hana að koma og bíta í hamsturinn minn því hann sé einum of góðu vanur.

Við sjáum hvað setur....

|

fimmtudagur, maí 27, 2004

.....eftir þónokkrar viðgerðir

Úff. Ógnvænlegur vírus sýkti tölvuna mína. Vesalings vélin stundi þungan og féll í yfirlið eftir aðeins nokkrar sekúndur ef einhver dirfðist að vekja hana. Harkalega hrikti í stoðum veruleika míns og um stund var ég orðin uggandi um eigin framtíð. Nú er sólin farin að skína á ný. Innilegar þakkir til Björns og Villa, sérfræðilækna sem gáfu af dýrmætum tíma sínum. Tárin þorna á vöngunum, skýjunum léttir og við blasir endurreisn. Húrra!

Ég tek ef til vill of djúpt í árinni, en það er þó staðreynd að í tvo daga eða svo var eins og öll tengsl við umheiminn hefðu verið rofin. Þá fattaði ég að netnotkun mín væri orðin óhófleg. Tók mig á og afrekaði mikið. Endurskipulagði allt dótið mitt og raðaði því í skúffur. Skrifaði lista á lista ofan. Datt inn í nokkrar sápuóperur og saumaði buxur. Nú er stefnan tekin á að læra að hekla og skrifa skáldsögu.

Auk þessara afreka fór ég svo í tjaldferð. Sú tjaldferð mun seint teljast til afreka. Sú tjaldferð var með eindæmum subbuleg. Mígandi rigning allan tímann og tjaldið lak. Það var samt gaman á tímabili. Hápunktur ferðarinnar var án efa þegar Júlía villtist inn í E-bekkjar tjaldið. Hápunktur vikunnar var hinsvegar sennilega þegar vinur minn laumaðist að mér og bömpaði mig svo harkalega að ég valt um koll, tók aðra stelpu með mér í fallinu og missti prinspólóið mitt. Sem lýsir sennilega einna best hvað undarfarnir dagar hafa verið viðburðalitlir.

Næst er það Flateyri. Ég mun fara á þriðjudaginn en dagur endurkomu er óstaðfestur. Mér hefur verið tjáð að ég muni sennilega fara að gráta eftir fyrsta vinnudaginn minn. Ég læt það nú vera, en þetta mun ábyggilega bara herða mig, sem er jákvætt. Unglingavinnan mun seint teljast til erfiðisvinnu

|

miðvikudagur, maí 12, 2004

Djöfulsins meri

Ohh hvað sumt fólk getur verið þröngsýnt, sjálfselskt og heimskt. Í dag varð ég svo reið að ég braut penna við það að henda honum í vegginn. Hending olli því að síminn varð ekki fyrir þessum skakkaföllum, en hann var í hinni hendinni.
Ferlið var nokkurnveginn svona:

(síminn hringir)
E-r kona: Halló, er Einar nokkuð við?
(eðlilega fer ég í algera köku, hvað á maður eiginlega að segja?)
Ég: Uhh... mér þykir leitt að segja þér það en hann lést fyrir mánuði síðan
Konan: Æi, fjandinn, ég hefði átt að hringja fyrr
Ég: öööö
Kellingin: Ég er sko að leita að einum ljósmyndara sem átti mynd í bók sem hann skrifaði...o.s.frv.
(Ég er náttúrulega öll af vilja gerð, veit ekki alveg hvað ég á að segja en spyr hvort hún hafi talað við útgefendurna. Hún grípur framí og heldur áfram)
Kellingin: Ég hef reynt og reynt að hafa samband við þjóðskjalasafn og bókasafn sjómannaskólans en það er eins og allir séu eitthvað sofandi þar! Allir endalaust í mat (sagt með mikilli fyrirlitningu) eða farnir heim (enn meiri fyrirlitningu).
- Hún heldur áfram, talar og talar um hvað allir séu ömurlega óþjónustulundaðir og að hún þurfi að finna ljósmyndarann sem tók útskriftarmyndina af árgangi pabba hennar, sem birtist í þessari bók. Kallar pabba ekki annað en þennan Einar og rausar um hvað það sé fáránlegt að hann hafi ekki tilgreint hvern einasta ljósmyndara í heimildaskránni. Takk ljúfan. -
Á endanum sting ég upp á að hún hafi samband við útgefandann. Þá segir hún:
Já, það er óskandi að hann hrökkvi ekki líka upp af áður en ég næ í hann.
Við þetta nenni ég eiginlega ekki að tala við þessa kellingu meira, býðst til þess að taka símanúmerið hennar ("Hringdu á þessum, þessum, eða þessum tímum, þessir tímar henta illa....") og fá mömmu til að hringja í hana.

Tík

Síðan frétti ég að fólkið á bókasafninu hafi leitað hátt og lágt fyrir þessa konu en hún hafi bara ekki hætt að hringja, ekki getað sætt sig við að gefast upp. Djöfull hata ég svona fólk sem heldur að allt annað fólk sé ekki fætt til annars en að liðsinna þeim.

|

laugardagur, maí 01, 2004

Tryllt djammhelgi, en ekki hvað?

Sjálfsblekking, sjálfsblekking. Lítið verður djammað þessa helgi, eins og flestar helgar, enda mun ég seint kallast partýljón. Ég er engu að síður mjög sátt við mitt hlutskipti, fór í gærkvöldi í heimsókn til frænda míns, gisti og fékk amerískar pönnukökur í morgunmat ásamt fleira góðgæti. Ég ætla ekki að telja það allt upp því þá verður þetta eins og skáldsaga eftir Enid Blyton. En ég lifi altént eins og blómi í eggi. Svo, eftir rúman hálftíma mun annar frændi minn koma að sækja mig og mun ég fara með honum, konunni hans og Fríðu, frænku/vinkonu minni upp í bústað þar sem viðhafður verður próflestur. Þetta verður ágætis helgi.

Ég mun einnig hafa með mér DVD myndina góðu og ætla að horfa á hana í bílnum. Arngunnur gat rétt til, þetta er Spirited Away, og hún er yndisleg. Ömurleg reyndar þegar hún er döbbuð, en á japönsku og með enskum texta er hún frábær. Döbbunin er nefnilega hrikaleg. Ég var að skoða heimildamynd um hana og þar var sagt að ætlunin hefði verið að hafa hana sem aðgengilegasta fyrir sem flesta og því hafi verið notast við almenna, venjulega ensku, sem ætti ekki að trufla neinn með einhverjum auka hreim. Það reyndist ekki raunin, onei! Þetta er sú alsúrasta, bandarískasta enska sem eyru mín hafa nokkru sinni numið. Ég get varla lýst því hér en heyrn er sögu ríkari. Stelpan fer sérstaklega í taugarnar á mér, bandarísk enska bara passar ekki inn í japanska teiknimynd. Mér finnst almennt að þegar verið er að döbba myndir eigi að notast við sem hlutlausasta ensku til að hún henti sem flestum.... En myndin er frábær á japönsku.

Í gærkvöldi nennti ég ekki að fara að sofa alveg strax svo að ég hreiðraði um mig uppi í rúmi með fartölvu og DVD mynd. Þetta var vampírumynd þar sem blóðið fékk sko aldeilis að flæða, þetta er ein af þessum myndum sem myndi eflaust framkalla aðsvif hjá systur minni. Ég sat hinsvegar sallaróleg með heyrnatólin mín og lét ósköpin ekkert trufla mig. Svo kláraðist myndin, ég slökkti ljósið, lá uppi í rúmi án nokkurar hræðslu eða myrkfælni, nema kannski bara við prófin, dreymdi svo fallega í alla nótt og vaknaði hress og kát í amerískar pönnukökur. Má af þessu álykta að ég sé með járnhjarta?

|