fimmtudagur, júní 23, 2005

Týpískt ég...

...að fá gubbupest, flensu og 40 stiga hita á sama degi.


Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég þurfti að fletta í gegnum margar dónamyndir til að finna þessa myndarlegu karlhjúkku!

|

þriðjudagur, júní 21, 2005

Ahhh

Stefndi í temmilega litlaust kvöld eftir temmilega litlausan dag. En síðan kom MSN samtal inn í myndina, stutt en frábært MSN samtal, fullt af hlýjum orðum og jákvæðni. Og viti menn, nú eru litirnir í himninum skærari og ég er með hlýjan fiðring í maganum. Ótrúlegt hvað eitt stutt MSN samtal getur lappað upp á skapið manns þegar flestallt annað hefur farið inn um annað og út um hitt, jafnt gott sem slæmt.

Er að hlusta á:
Devendra Banhart - Niño Rojo

Klara Væmna

P.S. upp með hönd sem hefur lent á ostinum ?

|

mánudagur, júní 20, 2005

Áður en ég dey ætla ég að...

...finna textalegt samhengi fyrir orðasambandið "gubba mjúklega á öxlina (á e-m)"
...Gefa mér tíma til þess að horfa með ömmu á danskan framhaldsþátt
...fara í fallhlífarstökk
...láta taka úr mér hálskirtlana. Pælið í því! Einhver partur af mér sem fer ekki í líkkistu heldur í ruslið á fossvogsspítala. Ætli hálskirtlum sé annars ekki fargað? Hvað gera þeir eiginlega við þá? Og legkökur? oj
...geta haldið uppi einhverju formi af samræðum á grísku
...læra hrafl í japönsku
...hlaupa tjarnarhringinn án þess að deyja úr astmakasti
...fótbrotna
...sofa undir berum himni (um nótt)
...sætta mig við það að ég muni aldrei fara í handahlaup
...læra að baka fullkomnar pönnukökur
...drekka einhvern undir borðið (ætli það verði ekki að vera busi, annars á ég ekki séns)


Alltaf gaman að fá góða punktafærslu til að lífga upp á andvökunæturnar. Slatti af þessu eru orðin tóm (Danskur framhaldsþáttur með ömmu=fyrr myndi ég naga af mér fótinn (þetta voru reyndar líka orðin tóm, auðvitað myndi ég ekkert gera það!)) en einhverju af þessu verður hrint í framkvæmd hið snarasta. Það er alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig.
En ég er sumsé andvaka. Ég sem hef alltaf verið óþolandi morgunhressa gellan sem tók daginn snemma (snaginn demma - fífl) af því að hún gat það, ekki bara þegar hún þurfti. Nú, sama hvað ég reyni, kemur mér ekki dúr á auga fyrir klukkan 2, en líkaminn vill hinsvegar allra helst taka sér góóóóða pásu svona um fimmleytið síðdegis.

|

föstudagur, júní 17, 2005

Er að hlusta á - Wonderwall með Oasis

Eftir þessi tvö ár mín í menntaskóla verður það sífellt skýrara fyrir mér hvað Landakotsskóli var ömurlegur staður, sérstaklega fyrir stelpur. Ég held að allavegana ein af hverjum þrem stelpum hafi verið þunglynd, með átröskun eða viljað vera með átröskun. Enda ekki að undra, allavegana eins og ég upplifaði þetta (get eins og gefur að skilja ekki talað frá öðru sjónarhorni) voru reglurnar nokkurnveginn svona: Ég var með þessum vinahóp, aðrar voru með öðrum vinahóp, og ef ein úr mínum hóp reifst við einhverja úr hinum hópnum þá hataði ég hana og allar hennar vinkonur. Bekkurin sló persónulegt met þegar 6 stelpur og 1 strákur fóru að gráta í einni afmælisveislu. Allt var oftúlkað og greint niður í eitthvað rugl sem Bridget Jones gæti bara verið þokkalega stolt af. Á þeim tíma fannst mér ég vera nakin ómáluð og talaði í símann að meðaltali í 4 klukkustundir á dag.
En sama hvað ég hataði þennan tíma, og þrátt fyrir allt baktalið, vesenið, klíkuskapinn og gelgjuna þá fæ ég alltaf nostalgíusting í magann þegar ég heyri Wonderwall. Í einni af bekkjarferðunum ákvað einn strákurinn að þetta yrði bekkjarlagið okkar, og hann var nógu vinsæll til að hrinda þessu í framkvæmd. Eftir tvo daga kunnu jafnvel hörðustu Korn aðdáendur textann. Og í hvert skipti sem ég heyri það gleymi ég öllu þessu leiðinlega sem átti sér stað í gagnfræðaskóla, ég óska þess næstum að ég væri komin þangað aftur og þyrfti aldrei að verða stór.

Takk Jónas

|

þriðjudagur, júní 14, 2005

a phobia on two legs

Mér finnst oft mjög óþægilegt að vera með tónlist í stórum heyrnatólum á förnum vegi þar sem mér finnst ógeðsleg tilhugsun að einhver gæti heyrt mig anda þegar ég heyri það ekki sjálf. Hins vegar hef ég mikla ánægju af öðrum þáttum þess að vera með stór heyrnatól. Ég er með astma.
Niðurstaða: Það er vandlifað í þessum heimi.

|

mánudagur, júní 06, 2005

Amsterdam

Ég er farin að hafa áhyggjur af því hvað ég er alltaf tóm inni í mér. Með hverjum deginum er ég hressari og hressari á yfirborðinu, allt gengur stórfenglega, allt er frábært, meira að segja uppvaskið á Subway er það skemmtilegasta sem ég hef gert lengi. Og ég meina það þegar ég segi það. Ég ráfa bara um með hressleikabrosið frosið á andlitinu en inni í mér finnst mér eins og ég sé að kafna, mest þegar ég er glöð. Alltaf þegar eitthvað jákvætt gerist er alltaf einhver lítill kvíðapúki í hnakkanum á mér sem veit að spennufallið á eftir að koma. Ég kem heim og BÚMM! Hvaða leifar sem voru eftir af sigrum dagsins rjúka út um eyrað á mér og heilinn í mér byrjar að spila öll litlu mistökin aftur og aftur.
Af þessari ástæðu næ ég aldrei að treysta því fullkomlega að fólki líki vel við mig, af því að heilinn leyfir mér ekki að muna önnur móment en þau þegar ég hef verið alger hálfviti. Þannig verður hálfvitaskapurinn og fíflalætin fyrir mér eitt af mínum stærstu persónueinkennum og ég spila á hann og verð meiri hálfviti og fífl. Ég hata það að mér finnist alltaf eins og fólk sé að hlæja að mér þegar það hlær með mér.

So there you go...

|