laugardagur, nóvember 26, 2005

þreyttur haus

Í dag vann ég vakt nr. 2 í Leikbæ. Það var dúndur. Ég er líka á nýjabrums-vinnu-stiginu sem lýsir sér í því að mér finnst bókstaflega ALLT skemmtilegt í vinnunni. Ég raðaði í hillur í dag nánast alveg samfleytt (það var pissupása einhversstaðar þarna inní) í fjóra tíma og mér fannst það ágætt. Nú er ég ógurlega fróð um Pleimó, til dæmis, og ég get lýst því hér með yfir að það er til Pleimó fyrir bókstaflega allt. Það jaðrar við að vera fáránlegt, það er til flugvallar-pleimó, verðbréfa-pleimó, Örkin-hans-Nóa-pleimó og það er heil hilla tileinkuð bóndabæja-pleimói. Ég sagði við yfirmannskonu mína: ,,fyndið hvað það er endalaust mikið til af bændapleimó!". ,,já, þetta er nýr vöruflokkur hjá þeim" svaraði hún alvarleg. Ég hef nú ákveðið að yfirmannskona mín hafi engan húmor. Maður þarf að vera orðinn dáldið harðsvíraður leikfangasali til að finnast bændapleimó vera eitthvað sem ber að taka alvarlega.

Ég vona að hún lesi þetta ekki, vegna þess að mér finnst gaman að raða í hillur og vita hvar fjarstýrðu bílarnir eru, og vil því ekki vera að skemma neitt.

Eins og er er samt mjóbakið mitt bara frekar svekkt yfir þessari vinnu, og ég sé duplo þegar ég loka augunum. En hafi einhver í hyggju að fá þráhyggju um mig væri dásamleg skemmtun fyrir viðkomandi að fara í Leikbæ á laugavegi, og niður á neðri hæðina, því þar hef ég snert hvern einasta hlut, strokið af honum og lagt hann varlega aftur á sinn stað.

góða helgi, kæri aðdáendi, og skemmtu þér vel

|

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

svefnleysi

Þegar ég var lítil gat ég ekki sofnað nema að heyra 'One More Cup Of Coffee' með Bob Dylan minnst einu sinni. Þetta fór óheyrilega í taugarnar á vinkonum mínum sem gistu iðulega hjá mér.
Núna dugir ekkert svoleiðis dóp. Ég er andvaka.

|

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Dagarnir eru langir manni ekkert gerandi

húhaa! Er bloggið dautt? Þrjúhundruð orða ritgerð um dauða bloggsins! Nei, ekki í dag, í dag er ég búin að stúta allt allt allt of miklu kaffi og kæfa rökhugsunina mína algerlega. Það eina sem ég hef löngun til að gera er að baka kanilsnúða. Já, og fá hlutverk í herranótt. Kannski baka kanilsnúða og taka þá með í Herranótt, þar sem ég mun hafa fengið hlutverk (fut II, seisei)

Án alls kaffiæsings, samt, ég er að farast úr spennu/kvíða/æsingi/tilhlökkun yfir yfirvofandi mánuðum. Að eiga búning, vera sminkaður, vera stressaður, undir pressu, þreyttur með öllum hinum og kominn með sveitt ógeð á pizzum, og detta svo rækilega í það í frumsýningarferð sem er útrás fyrir tryllt spennufall, er bara eitthvað sem ég lifi fyrir. Það er tilhlökkunin. Kvíðinn snýst að sjálfsögðu að mestu leyti um það að fá kannski ekki bitastætt hlutverk.. Spennan er svo sú hverjir verða í leikhópnum í ár og vonandi líkar þeim við mig.

Mig dreymdi einmitt í nótt að ég hefði eignast barn og því líkaði illa við mig, það öskraði þegar ég kom nálægt því og vildi bara vera hjá einhverjum öðrum. Það endaði á því að fæðingarlæknirinn tók það og ól það upp og ég dó innra með mér. Mig dreymir alltaf svo svæsna sáludrauma þessa dagana. Það er væntanlega óhjákvæmileg afleiðing þess að vera svona vör um sjálfa mig og uggandi um stöðu mína þessa dagana. Einn hópurinn í herranótt hefur þegar lokið námskeiðinu, síðasti dagur námskeiðs er á morgun. Svo er manni kastað út í djúpu laugina, við lesum leikritið og svo bíð ég milli vonar og ótta og tékka á herranætur-ímeilinu í hverjum 5 mín. frímínútum.

Fínt að fá Sólbjart til að hrista aðeins upp í þessu! Ég er sumsé að keppa í Sólbjarti (innanskólaræðukeppni MR) með Sigrúnu, Sigurlaugu og Guðrúnu Sóleyju (vó, beygingarmynd!) á fimmtudaginn næstkomandi (17. nóv.) klukkan 15:00 og ÞÚ átt að koma og vera með læti (á réttum stöðum að sjálfsögðu). Umræðuefni verður ákveðið á morgun. Massíft

|