þreyttur haus
Í dag vann ég vakt nr. 2 í Leikbæ. Það var dúndur. Ég er líka á nýjabrums-vinnu-stiginu sem lýsir sér í því að mér finnst bókstaflega ALLT skemmtilegt í vinnunni. Ég raðaði í hillur í dag nánast alveg samfleytt (það var pissupása einhversstaðar þarna inní) í fjóra tíma og mér fannst það ágætt. Nú er ég ógurlega fróð um Pleimó, til dæmis, og ég get lýst því hér með yfir að það er til Pleimó fyrir bókstaflega allt. Það jaðrar við að vera fáránlegt, það er til flugvallar-pleimó, verðbréfa-pleimó, Örkin-hans-Nóa-pleimó og það er heil hilla tileinkuð bóndabæja-pleimói. Ég sagði við yfirmannskonu mína: ,,fyndið hvað það er endalaust mikið til af bændapleimó!". ,,já, þetta er nýr vöruflokkur hjá þeim" svaraði hún alvarleg. Ég hef nú ákveðið að yfirmannskona mín hafi engan húmor. Maður þarf að vera orðinn dáldið harðsvíraður leikfangasali til að finnast bændapleimó vera eitthvað sem ber að taka alvarlega.
Ég vona að hún lesi þetta ekki, vegna þess að mér finnst gaman að raða í hillur og vita hvar fjarstýrðu bílarnir eru, og vil því ekki vera að skemma neitt.
Eins og er er samt mjóbakið mitt bara frekar svekkt yfir þessari vinnu, og ég sé duplo þegar ég loka augunum. En hafi einhver í hyggju að fá þráhyggju um mig væri dásamleg skemmtun fyrir viðkomandi að fara í Leikbæ á laugavegi, og niður á neðri hæðina, því þar hef ég snert hvern einasta hlut, strokið af honum og lagt hann varlega aftur á sinn stað.
góða helgi, kæri aðdáendi, og skemmtu þér vel