hressi þunni væmni
Í dag upplifði ég fáránlegustu þynnku sem ég hef orðið vitni að. Ég segi vitni að vegna þess að ég var einhversstaðar lengst inni í hausnum á mér og heimurinn sá bara um þetta fyrir mig.
Í gær var semsagt leikfélagsferð. Með öllu tilheyrandi. Við mikla kátínu var reifið endurvakið og ég varð eins og eitthvað dýr, reifdýr. Ég glímdi við Emil og hann vann mig tvisvar, og Sigurður Kjartan slengdi mér á veggi og gólfið (bókstaflega) í takt við Underground soundtrackið, svo ég rak hausinn í borð.
Í dag vaknaði ég, aum í reifvöðvunum, tók rútuna í bæinn og ráfaði svo, enn á náttfötunum og með sængina mína, með nokkrum álíka týndum gaurum inn á Hamborgarabúllu Tómasar. Við komum við í gæludýrabúð, og hittum hressan síberíuhamstur og ógeðslegan fugl sem hvæsti á okkur, og skoðuðum 50.000 króna páfagaukinn sem Björgvin vill kaupa sér. Hann dró okkur semsagt þangað til að heimsækja hann. Ég vildi að hann kostaði minna og ég ætti einhverja peninga, því ég hef aldrei séð Bjögga svona hamingjusaman. Hann er svo skrýtinn.
Núna er ég bara ágætlega góð á því, og það er komið að mömmu. Hún fékk sér eitt sérrístaup og rauðvínsglas og er nú komin á blússandi ímyndunarfyllerí, Nina Simone er komin á fóninn og mamma skoppar eins og lítið barn á jólunum um íbúðina og vill að ég dansi við sig. Ég sit bara og horfi blíðlega og skilningsríkt á þessa konu sem ég bý hjá. Hún er ágæt.
Appú
Klara væmna