Eins og hefð gerir ráð fyrir:
Mamma: Hvar er helvítis ryksuguhausinn?
Ég: Hættu að segja svona ljótt
Mamma: Ég var ekkert að segja ljótt
Ég: Jú víst, þú segir ALLTAF ljótt
Mamma: Ég segi ekker alltaf ljótt. Silvía Nótt segir alltaf ljótt!
Ég: Haha, rím
Mamma: (muldrar) Fokking þetta og fokking hitt.
Takið vel eftir því þetta var síðasta mömmubloggið sem ég skrifa. Ég þarf virkilega að fara að einbeita mér að öðrum hugðarefnum.
Að því sögðu:
Doddi skrifaði nýlega færslu um kvenkynið sem fékk mann næstum því til að vilja spila
"Þér konur" á hæsta styrk, spreyja á mig
svona ilmvatni og reykja mjóa ilmandi sígarettu úti á svölum á undirkjólnum einum klæða, smápiltum hverfisins til ánægju og yndisauka. Þar sem, hinsvegar, "Þér konur" vekur hjá mér óneitanlega velgju (reyndar stolti blandna, en samt velgju), ég fæ mjög svo órómantískt astmakast af sígarettureyk og lít ekki beint út eins og Brigitte Bardot (þótt Ólöf hafi nú einu sinni sagt það, líklega til að gleðja mig) á náttkjól þá ætla ég ekki að gera neitt af þessum hlutum, heldur eitthvað annað.
Nú er ég búin að segja ykkur hvað ég ætla ekki að gera. Eða svona, já... listinn gæti svosem alveg verið lengri. Líka listinn yfir það hvað ég ætti að vera að gera en er ekki að gera, hann er líka frekar langur, sem og listinn yfir það sem ég ætti ekki að gera, en enda sennilega með að gera. Þessi bloggfærsla er alveg örugglega á topp fimm yfir það, en próf fá mann til að vera asnalegur. Strákar líka, sérstaklega strákarnir sem fá mann til að blaðra út í eitt og sjá svo eftir hverju orði. Ég er með einn svoleiðis á sjóndeildarhringnum, en svo fer sem fer, kannski vakna ég einn morguninn með kúl, það er aldrei að vita.
(einn tveir og skrifa aftur í skipulagðri orðaröð:)
En aftur að kvenkyninu. Óháð öllu því sem Doddi talaði um í sambandi við kosti stelpna, þá er einn þáttur sem er óhrekjanlegur, og hann gleymdi að nefna: Allar stelpur breytast annaðhvort í a) mömmu sína eða b) hinn öfgann á skalanum eins konar andmömmusína. Bæði er jafnslæmt. Stelpur eru nefnilega klikkaðar upp til hópa, þær hætta ekkert að vera það þótt þær þykist hafa þroskast og eru komnar með bílpróf og eitthvað.
Þar sem mamma mín er af mörgum álitin vera í klikkaðri kantinum, jafnvel af "stelpu" að vera (hún kallar meindýraeyðinn í daglegu tali "the Mein Kampf") , hef ég því komið með krók móti bragði. Ég er ekki að verða eins og móðir mín, ónei! Ég er orðin að móður móður minnar. Húha! Nú skamma ég hana fyrir að blóta (sjá að ofan), spyr hana áhyggjufull hvort hún hafi ekki örugglega borðað nóg í hádegismat og finn fyrir örlitlum andlegum sæluhroll þegar hún segist hafa týnt lyklunum sínum, áður en ég vind mér í að segja henni að hún verði að passa dótið sitt betur.
Henni virðist bara finnast þetta nokkuð fínt, ef ekki pínu gaman, svona að fá að vera unglingur aftur, 55 ára gömul.
Hasta luego, annars (í tilefni af spænskuprófs-RÚSTI), ég er farin á garðsölu.