föstudagur, september 28, 2007

Í fréttum er þetta helst...

... að ég gafst upp á sófalífinu í stofunni sem er líka borðstofa og eldhús, og er byrjuð að leigja herbergi hjá Svampa vini mínum (og kennara) sem reyndist svo vera annar helmingurinn af einu dásamlegasta hommapari sem ég hef hitt. Síðdegis eru þeir báðir mjög intellektúal, "við tölum 3 tungumál og erum með þriggja daga skegg" karlmannlegir gæjar, en eftir tvo til þrjá bjóra verða þeir eins og flissandi smástelpur, og þegar þeir dilla sér, ó hvað ég elska þegar þeir dilla sér!

Í dag er svo útúrsteiktur 28 ára þýskur líffræðingur að flytja inn. Sá heitir Andreas og er ótrúlega fyndinn, en ég er ekki alveg viss hvort að það er af því að hann er svona skemmtilegur persónuleiki eða af því að hann er með svakalegasta þýska hreim sem ég hef heyrt (hann rústar alveg gæjanum í "vat are you zinking about" auglýsingunni). Hann er líka alltaf skakkur, og með agnarsmáa hermannaderhúfu. Við erum orðnir miklir félagar, þrátt fyrir samskiptaörðugleika og þá staðreynd að ég fer alltaf undan í flæmingi þegar hann spyr mig hvort ég kunni að elda. Síðast leigði hann nefnilega með, meðal annarra, ákaflega undirgefinni portúgalskri stelpu sem eldaði mat ofan í allt hverfið á hverju kvöldi.

Þriðji leigjandinn er svo enn ófundinn, ein stelpa er búin að koma að skoða en Svampi sagðist ekki vera alveg viss með hana af því að hún er víst "ekki eins og við". Ég veit ekki alveg hvað ég á að lesa í það um eigin persónuleika, en ég, Svampi og Andreas erum víst af sömu dýrategund. Hvaða dýrategund það er á ég enn eftir að komast að...

|

mánudagur, september 24, 2007

Misskilningur

Í dag lenti ég í mínum fyrsta tungumálamisskilning. Samtalið sem ég hélt að væri að eiga sér stað var svona:

Klara (við nýja strákinn í bekknum): Áttu nokkuð auka penna? Ég gleymdi öllum mínum heima hjá vini mínum um helgina
Nýji Strákur: Ha?
K: Mig vantar penna
NS: Uuuu...
K: Tússlit? eitthvað
NS: Uh nei... því miður
Svampi: Hvað segirðu Klara
K: Mig vantar penna... átt þú nokkuð penna?
S: Auðvitað á ég penna, hvað meinarðu?
K: Má ég fá hann lánaðan?
S: HA?
K: Ég gleymdi öllum pennunum mínum heima hjá Jason um daginn, og mig vantar að nota einn núna
S: UM HVAÐ ERTU AÐ TALA?
K: Penna... svona til að skrifa með
S og NS: Jaaaaaá, HAHAHAHAHAHAHA

Samtalið sem var í rauninni að eiga sér stað var svona:

Klara (við nýja strákinn í bekknum): Áttu nokkuð auka typpi? Ég gleymdi öllum mínum heima hjá vini mínum um helgina
Nýji Strákur: Ha?
K: Mig vantar typpi
NS: Uuuu...
K: Tússlit? eitthvað
NS: Uh nei... því miður
Svampi: Hvað segirðu Klara
K: Mig vantar typpi... Ert þú nokkuð með typpi?
S: Auðvitað er ég með typpi, hvað meinarðu?
K: Má ég fá það lánað?
S: HA?
K: Ég gleymdi öllum typpunum mínum heima hjá Jason um daginn, og mig vantar að nota eitt núna
S: UM HVAÐ ERTU AÐ TALA?
K: Typpi... svona til að skrifa með
S og NS: Jaaaaaá, HAHAHAHAHAHAHA


Dem!

|

föstudagur, september 21, 2007

Það er þrumuveður úti. Samt er hitastigið á við besta forsíðufregnar-hitastig á íslandi, og maður hefur það bara mjög notalegt undir regnhlífinni sinni. Ég gæti alveg vanist þessu...

|

laugardagur, september 15, 2007

Velkomin heim

Í gær gegnum sótsvart ský ölvunar minnar sá ég mér til mikillar kátínu að það eru líka stjörnur í Granada

... Það var ljóðrænasti hluti annars mjög ómenningarlegs kvölds

|

mánudagur, september 10, 2007

Um dýrin úti í Afríku, um apana og fleira

Ég byrjaði á spænskunámskeiðinu í dag. Það var eins og við mátti búast, svona fyrsta daginn - vandræðalegt og fullt af könum. Það fyrrnefnda mun sennilega breytast. Það síðarnefnda er víst blákaldur raunveruleikinn. Þetta er annars skemmtileg tilbreyting frá vinalausum hversdagsleikanum, enda vona ég að það að fara með þjóninum mínum í spænska góða hirðinn hafi ekki verið hátindur félagslífs míns hér í landi.
Ég hafði lúmskt gaman af að hitta svona hóp af nýju fólki og stilla fordómagírinn alveg í botn. Með mér í bekk eru eftirfarandi nemendur:
- Þýsk stelpa sem er alveg ótrúlega löng og mjó, og með mjótt andlit - svolítið eins og einhver hafi teygt hana. Hún talar spænsku með frönskum hreim af því að eftir menntaskóla vann hún í eitt ár í disneylandi í parís. Hún var klædd í fjólublátt frá toppi til táar, og maulaði grillaða samloku þegar hún sagði mér að hún væri að læra viðskiptafræði, en fyndist skemmtilegast að semja trúbadoratónlist. Frábært eintak
- Norsk stelpa sem mér fannst alveg fullkomlega óþolandi. Hún gjammaði alltaf fram í ef hún hélt að maður hefði sagt eitthvað vitlaust (og reyndist þá oftar en ekki hafa rangt fyrir sér), setti stút á munninn og dillaði hausnum við hvert tækifæri, og var með kæk að skella alltaf í góm, og þegar mjóa þýskan benti henni á það gerði hún það aftur, ennþá hærra og setti svo stút á varirnar og gerði svona "true dat" höfuðhreyfingu. Hún talaði líka manna hæst um málstofn íslensku, og greip alltaf fram í fyrir mér þegar ég reyndi að útskýra fyrir henni að íslenska væri ekki skyldust finnsku. Það eina sem er súrara en besserwisser er besserwisser sem veit ekkert í sinn haus.
- Bandarískur strákur sem var með dýpstu rödd sem ég heyrt og að horfa á hann var eins og að horfa á venjulega manneskju gegnum stækkunargler. Stórkostleg upplifun þar sem hann sat við hliðina á löngu mjóu stelpunni. Hann gerði hinsvegar lítið annað en að horfa tómlega út í loftið.
- Ástralskur maður - já maður - sem vinnur tvær vikur í mánuði á olíuborpalli í skotlandi en hinar tvær í Granada, af því að það kostar minna að leigja þar. Úff hvað ég myndi fá ógeð á flugvélamat!
- Bandarískur strákur sem er blússandi besserwisser og frá "oklahoma", sem er víst "bang in the middle of the States, man!"
- Bandarískur strákur sem tókst á einum degi að klúðra öllum æfingunum, misskilja öll fyrirmæli, gleyma öllum bókunum sínum og koma seint bæði fyrir og eftir hlé. Maður tekur alveg ofan fyrir þessum.

- Íslensk stelpa sem getur ekki ímyndað sér að þetta fólk sé betra en allir krakkarnir heima. Mikið sakna ég ykkar allra!

-Já, og kennarinn minn heitir Juampe. Ég ætla hér eftir að kalla hann "Svampi"

|

sunnudagur, september 09, 2007

Ekki stúlka, ekki enn kona

Mig dreymdi draum í nótt. Ég var í ilmvatnsbúð og að reyna að ákveða hvort ég ætti að kaupa mér konuilmvatnið "lovely" eða stelpuilmvatnið "moschino love".

|

laugardagur, september 08, 2007

Hnotskurnin

Ég hef gerst fastakúnni á einu kaffihúsi rétt hjá þar sem ég bý, í hverfinu Realejo í Granada. Á rúmri viku hef ég meira að segja náð að ganga svo langt í fastakúnnsku minni að ég á mér mitt fastasæti við mitt fastaborð og ég og minn fastaþjónn fórum og fengum okkur drykk um daginn þegar hann var í fríi... Svo hef ég lagt það í vana minn að teikna hvern þann sem sest í eitt sæti við borð rétt hjá mínu. Spánverjarnir taka flestir bara vel í það, hlæja og spyrja hvaðan ég er. En ein stelpa gekk upp að mér og sagði hneyksluð "nó þeink jú" á ljótri ensku, á sama hátt og hún sagði "nó þeink jú" við betlarann sem vildi selja henni kveikjara. Þarf ekki að véfengja það frekar að þar var Þjóðverji á ferðinni.

|