Í fréttum er þetta helst...
... að ég gafst upp á sófalífinu í stofunni sem er líka borðstofa og eldhús, og er byrjuð að leigja herbergi hjá Svampa vini mínum (og kennara) sem reyndist svo vera annar helmingurinn af einu dásamlegasta hommapari sem ég hef hitt. Síðdegis eru þeir báðir mjög intellektúal, "við tölum 3 tungumál og erum með þriggja daga skegg" karlmannlegir gæjar, en eftir tvo til þrjá bjóra verða þeir eins og flissandi smástelpur, og þegar þeir dilla sér, ó hvað ég elska þegar þeir dilla sér!
Í dag er svo útúrsteiktur 28 ára þýskur líffræðingur að flytja inn. Sá heitir Andreas og er ótrúlega fyndinn, en ég er ekki alveg viss hvort að það er af því að hann er svona skemmtilegur persónuleiki eða af því að hann er með svakalegasta þýska hreim sem ég hef heyrt (hann rústar alveg gæjanum í "vat are you zinking about" auglýsingunni). Hann er líka alltaf skakkur, og með agnarsmáa hermannaderhúfu. Við erum orðnir miklir félagar, þrátt fyrir samskiptaörðugleika og þá staðreynd að ég fer alltaf undan í flæmingi þegar hann spyr mig hvort ég kunni að elda. Síðast leigði hann nefnilega með, meðal annarra, ákaflega undirgefinni portúgalskri stelpu sem eldaði mat ofan í allt hverfið á hverju kvöldi.
Þriðji leigjandinn er svo enn ófundinn, ein stelpa er búin að koma að skoða en Svampi sagðist ekki vera alveg viss með hana af því að hún er víst "ekki eins og við". Ég veit ekki alveg hvað ég á að lesa í það um eigin persónuleika, en ég, Svampi og Andreas erum víst af sömu dýrategund. Hvaða dýrategund það er á ég enn eftir að komast að...