föstudagur, nóvember 30, 2007

3 færslur á einum degi!

Ég var nýsest á klósettið þegar Einar kallaði innan úr stofu:
"Kallaðu bara þegar þú ert búin"

3 færslur á einum degi er kannski aðeins of mikið (að því gefnu að maður sé ekki jafn bráðskemmtilegur og Ármann Jakobsson), en mér fannst þetta bara of gott til að sleppa því.

|

óóóóójá!

Eftir að hafa spjallað stundarkorn við leigubílsstjóra kom það honum mjög á óvart að ég skyldi ekki kunna orðið "umferðarljós" á spænsku. Hann hélt nefnilega að ég væri innfæddur Granadabúi. Hálftíma seinna ljóma ég enn af gleði.

|

Fagmannleg viðbrögð á spænsku ræðismannsskrifstofunni

-Já halló?
-Góðan daginn, ég er að hringja héðan frá Spáni...
-Uuuuu?
-Er ég kannski að hringja í skakkt númer?
-Ha? Nei
-Þetta er sumsé hjá spænska ræðismanninum?
-Já, en heyrðu, geturðu kannski hringt aftur eftir svona hálftíma, ég er dálítið upptekinn...

Eftir þetta mjög svo heimilislega spjall skellti ég á, og velti fyrir mér hvernig hann svarar í símann heima hjá sér, ef hann svarar svona í símann í vinnunni...

|

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Ég er sjálfri mér verst

Það vantaði nú bara að maður dytti inn í fjandans Prison Break líka!

|

mánudagur, nóvember 26, 2007

Undanfarna viku hef ég af og til gist heima hjá Dagnýju. Í hvert einasta skipti hefur Einar vaknað um fjögurleytið og öskrað sig hásan í svona hálftíma yfir einhverri algerri steik sem hann er að dreyma, áður en Dagný nær að róa hann og fá hann aftur til að sofna. Hátindinum var náð í gærnótt þegar hann hljóp trylltur fram á gang vegna þess að dúkkan hans var ekki í sokkum og hann var viss um að sokkarnir væru í lyftunni. Ég er svona almennt orðin frekar lunkin í barnasálfræðinni en klukkan fjögur um nótt á ég bara ekki til svar við sokkaleysi Péturs Bambaló. Enda man ég ekki betur en ég hafi bara sest upp, litið í kringum mig og sagt "hann er í ruglinu, Dagný, RUGLINU". Ég á greinilega langt í land með að verða foreldri...

|

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Játning

Ég þvæ mér ekki í framan reglulega, ég nota hvorki sólarvörn né rakakrem, né exfólíeitör né tóner að staðaldri. Mér hættir til að drekka minna en lítra af vatni á dag, og ég hef aldrei farið í húðhreinsun. Fram til dagsins í dag hefur mér fundist þetta fullkomlega eðlilegt, en fram til dagsins í dag hafði ég heldur aldrei farið í viðtalstíma við snyrtifræðing (ekki spyrja, tungumálaörðugleikar spiluðu inn í). Konan bókstaflega missti andlitið. Sem er í sjálfu sér mikil synd þar sem hún hefur augljóslega lagt mikla vinnu og peninga í það.

|

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Kyn

Vinur minn útskýrði í gær fyrir mér, kominn vel á fimmta bjór, þá írónísku staðreynd að spænska orðið fyrir typpi er kvenkynsorð en orðið fyrir píku karlkynsorð. Þetta fannst mér fróðlegt þar sem typpin hafa jú alltaf verið að vefjast fyrir mér (náttúrulega bara í málfræðilegum skilningi - ég er fróm stúlka og lofuð). Eftir daginn í dag mun það því ekki gerast aftur að ég kalli typpi óvart "kjúkling".

Ég sagði honum svo að íslenska orðið fyrir typpi væri hvorugkynsorð. Hann hló svo mikið að hann datt af stólnum sínum.

|

mánudagur, nóvember 05, 2007

Þetta finnst mer fallegt...

|