Eipun og spænskuverkefni - eiga oft saman
Gærdagurinn var skemmtilegur. Ég uppgötvaði að það er ótrúlega gaman að dansa í blikkljósum (Jón Eðvald sagði mér eitthvað nafn á þessu fyrirbæri en ég man ekki hvað það var). Ég uppgötvaði reyndar líka að það er enn brýnni þörf fyrir Hægri-Vinstri reglu en ég hélt.
Dagurinn í dag er svo allt annar handleggur. Mamma er að eipa því það eru að koma gestir eftir sléttar...... 6 mínútur. Pabbi er að eipa en á allt annan hátt, hann er orðin óhugnanlega gjafmildur og ákafur um veröldina. Það er svosum allt í lagi, gaman fyrir hann, en þetta er ekki sá pabbi sem við vorum vön að þekkja, og þetta veldur bara því að mamma eipar enn meira. Ég tek þessu hinsvegar bara með stóískri ró, enda nýkomin frá Röggu, og hennar heimili er Mekka jafnaðargeðsins, þetta er afslappaðasta fjölskylda sem ég hef nokkru sinni kynnst. Mín fjölskylda er hvorki stóísk né afslöppuð en ég elska þau nú samt. Veigra mér bara dálítið við að koma með nýja vini heim, enda verða þeir oftast hræddir.
Ég fékk spænskuritgerðina mína aftur í gær. Furðulega lítið af villum miðað við bullið sem ég var að skrifa. Lauslega þýtt var ritgerðin mín svona:
Kæra Anna.
Kærar þakkir fyrir bréfið þitt. Hér í sveitinni er ég mjög einangruð og ég þrái einhverja skemmtun eða spennu, og bréfin þín eru skemmtileg lesning. Þú segist vera mjög ánægð í vinnunni og þú hefur það gott. Ég er hvorki ánægð, né hef ég það gott. Ég er mjög sorgmædd, því allir vinir mínir eru í Reykjavík með þér eða í fríi í einhverjum spennandi löngum. (þessi setning útleggst best á ensku:) But for me, no such luck! Ég er föst á þessu býli með bónda sem klórar sér í klofinu og bóndakonu sem eldar ógeðslegan mat. Og hvílíkar hryllingsbeljur! Ég held að kýrnar, sem ég neyðist til að mjólka, hati mig, og hundurinn hefur áreitt mig. Landslagið er mjög fallegt en hvílíkur kuldi! Það er alltaf kuldi og oft rigning. Eini vinur minn á þessum hræðilega stað hefur verið kötturinn Branda. Ég hef leikið við Bröndu í frítíma mínum og verið ánægð um stund. En nú er Branda dáin og ég er sorgmædd og einmana. Ég get ekki talað við neinn og mér líkar ekki við neitt eða neinn. Ég vil snúa aftur til Reykjavíkur. Í Reykjavík á ég marga vini en í sveitinni aðeins hryllileg dýr.
Ég hlakka til að sjá þig, vina mín.
Kveðjur
Klara
(þetta skrifaði ég einnig á ritgerðina:) Ath. Ekki skal túlka ritgerð á nokkurn hátt sem fyrirlitningu mína í garð landsbyggðarinnar og þeirra sem þar búa
Þakkir til Önnu Margrétar og Ragnhildar fyrir innblástur (og þá á ég við hugmyndir, ekki það að ég hafi heimfært Önnu í bóndanum og Ragnhildi sem beljurnar. Þær komu aðeins með uppástungur sem voru vel þegnar)
Nú þarf ég hinsvegar að skila henni aftur, leiðréttri, til spænskukennarans. Er einhver hjálpfús aðili þarna úti sem býr yfir sæmilegri spænskukunnáttu?