laugardagur, febrúar 28, 2004

Eipun og spænskuverkefni - eiga oft saman

Gærdagurinn var skemmtilegur. Ég uppgötvaði að það er ótrúlega gaman að dansa í blikkljósum (Jón Eðvald sagði mér eitthvað nafn á þessu fyrirbæri en ég man ekki hvað það var). Ég uppgötvaði reyndar líka að það er enn brýnni þörf fyrir Hægri-Vinstri reglu en ég hélt.
Dagurinn í dag er svo allt annar handleggur. Mamma er að eipa því það eru að koma gestir eftir sléttar...... 6 mínútur. Pabbi er að eipa en á allt annan hátt, hann er orðin óhugnanlega gjafmildur og ákafur um veröldina. Það er svosum allt í lagi, gaman fyrir hann, en þetta er ekki sá pabbi sem við vorum vön að þekkja, og þetta veldur bara því að mamma eipar enn meira. Ég tek þessu hinsvegar bara með stóískri ró, enda nýkomin frá Röggu, og hennar heimili er Mekka jafnaðargeðsins, þetta er afslappaðasta fjölskylda sem ég hef nokkru sinni kynnst. Mín fjölskylda er hvorki stóísk né afslöppuð en ég elska þau nú samt. Veigra mér bara dálítið við að koma með nýja vini heim, enda verða þeir oftast hræddir.
Ég fékk spænskuritgerðina mína aftur í gær. Furðulega lítið af villum miðað við bullið sem ég var að skrifa. Lauslega þýtt var ritgerðin mín svona:

Kæra Anna.
Kærar þakkir fyrir bréfið þitt. Hér í sveitinni er ég mjög einangruð og ég þrái einhverja skemmtun eða spennu, og bréfin þín eru skemmtileg lesning. Þú segist vera mjög ánægð í vinnunni og þú hefur það gott. Ég er hvorki ánægð, né hef ég það gott. Ég er mjög sorgmædd, því allir vinir mínir eru í Reykjavík með þér eða í fríi í einhverjum spennandi löngum. (þessi setning útleggst best á ensku:) But for me, no such luck! Ég er föst á þessu býli með bónda sem klórar sér í klofinu og bóndakonu sem eldar ógeðslegan mat. Og hvílíkar hryllingsbeljur! Ég held að kýrnar, sem ég neyðist til að mjólka, hati mig, og hundurinn hefur áreitt mig. Landslagið er mjög fallegt en hvílíkur kuldi! Það er alltaf kuldi og oft rigning. Eini vinur minn á þessum hræðilega stað hefur verið kötturinn Branda. Ég hef leikið við Bröndu í frítíma mínum og verið ánægð um stund. En nú er Branda dáin og ég er sorgmædd og einmana. Ég get ekki talað við neinn og mér líkar ekki við neitt eða neinn. Ég vil snúa aftur til Reykjavíkur. Í Reykjavík á ég marga vini en í sveitinni aðeins hryllileg dýr.
Ég hlakka til að sjá þig, vina mín.
Kveðjur
Klara
(þetta skrifaði ég einnig á ritgerðina:) Ath. Ekki skal túlka ritgerð á nokkurn hátt sem fyrirlitningu mína í garð landsbyggðarinnar og þeirra sem þar búa

Þakkir til Önnu Margrétar og Ragnhildar fyrir innblástur (og þá á ég við hugmyndir, ekki það að ég hafi heimfært Önnu í bóndanum og Ragnhildi sem beljurnar. Þær komu aðeins með uppástungur sem voru vel þegnar)
Nú þarf ég hinsvegar að skila henni aftur, leiðréttri, til spænskukennarans. Er einhver hjálpfús aðili þarna úti sem býr yfir sæmilegri spænskukunnáttu?

|

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Til að þóknast.... Das Übermensch?

Wo ist meinem Zähler???

Das Übermensch getur nú andað léttar yfir því að nú rita ég málfræðilega rétta þýsku. Ég er ekki vön að skrifa algerlega nýtt blogg yfir einhverri málfræðigagnrýni en hvur grefillinn! Þetta var rúst. Ég ákvað því að gera yfirbót. Ekki misskilja skrif mín og halda að ég sé eitthvað pirruð en ég hef aldrei fengið þýskufyrirlesturscomment áður. Ég er mjög svo upp með mér.

Þetta kallast ekki að drepa tíman. Þetta kallast að slátra honum. Ég beilaði á fjölskyldubaunastund. Þetta átti að vera fjölskyldusaltkjötogbaunastund en þar sem ég borða ekki saltkjöt hefði ég fengið að gæða mér á orabaunum og rófustöppu og ég nennti ekki alveg..... Beilaði líka á leikhúsrennsli, ætlaði að fara en uppgötvaði svo að ég hafði misst af síðasta strætó sem hefði komið mér þangað á réttum tíma.... Svo beilaði ég LÍKA á að kíkja á Júlíu á subway, vegna þess einfaldlega að ég veit ekki á hvaða subway hún vinnur. Og það vita allir að Nú eru komnir 12 subwaystaðir um land allt! Komið á subway, ferskleiki er okkar bragð! Leitin hefði því getað orðið nokkuð löng. Ég á að vera að skrifa spænskuritgerð en ég þjáist af frestunaráráttu á háu stigi. Auk þess er andagiftin í lágmarki og ég er í stuði til að skrifa eitthvað frumlegt, ekki bara vera einn af nemendunum 60 sem skálduðu upp póstkort til vinar síns frá sólarströnd og töluðu um veðrið.

hey
been trying to meet you
hey
must be a devil between us
or whores in my head
whores at my door
whores in my bed
but hey
where
have you
been
if you go i will surely die
we're chained

uh said the man to the lady
uh said the lady to the man she adored
and the whores like a choir
go uh all night
and mary ain't you tired of this
uh
is
the
sound
that the mother makes when the baby breaks
we're chained

Gæðin rýrna, gæðin rýrna.
Ég er eiginlega bara eftir mig! Djöfull var ég feisuð

|

Wo bist mein teljer???

Meira í vændum en eins og er verð ég að einbeita mér að spænskuritgerð.... einhverjar hugmyndir að bréfi á spænsku sem er nokkuð einfalt í smíðum?

|

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Undiraldan

Ég horfði á hryllilega breska bíómynd. Og þá á ég ekki við að hún hafi verið hryllilega bresk, heldur að hún hafi verið hryllileg, og þar að auki bresk.Hún var ein af þessum myndum um bælt aðalsfólk og bældu þjónana þeirra. Það er náttúrulega ekki nema von að þau séu bæld, þau eru svo gífurlega heft af formlegum talsmáta. Ég elska stifflip-ensku, en stundum þykir manni bara nóg um, þegar yfirbrytinn segir við ráðskonuna, sem vill svo til að hann er gríðarlega ástfanginn af, og það er gagnkvæmt: "I have to polish his lordship's shoes this evenening and thus have to cancel our aqquaintance, but I do sincerely hope to see you bright and well tomorrow morning for we must promptly serve tea at 9 am". Þetta hefur náttúrulega enga möguleika til að verða á nokkurn hátt ástríðuþrungi?. Ég meina, hversu djúp ástartjáning er það að segja: "I am very fond of you, and I do hope that our lives will be forged to one". Myndin er svo náttúrulega bara bæld út í gegn og ég var orðin ótrúlega frústreruð. Þau þekkjast í einhver ár, og allan tímann er maður að hugsa "KYSSTU hana bara, fjandakornið". Svo giftist gellan bara einhverjum öðrum gaur en er alla tíð óhamingjusöm í hjónabandi og skilur því við hann. Þá fær hún, 20 árum of seint, bréf frá gamla yfirbrytanum og hann býður henni að koma aftur til starfa á setrinu. En þá vill svo heppilega til að dóttir hennar verður ófrísk og ráðskonan verður að vera um kyrrt í bænum til að annast um dótturina. Gömlu, bældu elskendurnir hittast, eru áfram bæld, segja ekkert innihaldsríkt eða áhugavert og svo fer hann aftur. Ogþávarðaðbúið. Ég var í þann veginn að verða öskureið, ég meina, það er ekkert gaman að horfa á myndir þar sem EKKERT gerist, og í lok myndarinnar er maður á NÁKVÆMLEGA sama stað og í byrjun myndarinnar, nema hvað að aðalsöguhetjan er bara ennþá óhamingjusamari. En svo fattaði ég að heimurinn er engin feelgood mynd úr bandarísku kvikmyndaveri. Maður getur aldrei yfirgefið einhverja við altarið og gifst frænku hennar og svo er það bara allt í lagi því brúðargreyið yfirgefna var hvort eð er miklu skotnara í bróður brúðgumans. Djöfuls rugl. Staðreyndin er sú að allar manneskjur eru upp að vissu marki bældar. Hver kannast ekki við það að hafa sagt eitthvað sem manni fannst alrangt, en það hentaði við verandi aðstæður? Ég sat í strætó um daginn og horfði á fólkið í kringum mig og ég fattaði að hver einasta manneskja var gersamlega óútreiknanleg. Ég vissi nákvæmlega ekkert um neinn af samferðalöngum mínum, og enginn þeirra vissi neitt um mig. Mig langaði til að standa upp og öskra: "Hæ, ég heiti Klara, ég hef enga hæfileika í því sem mér finnst skemmtilegast að gera og það sem ég kann finnst mér leiðinlegt. Pabbi minn er með krabbamein á 4 stigi og ég er ótrúlega hrædd, en allt sem ég hugsa bæli ég niður, vegna þess að ég er þess fullviss að fólk haldi að ég vilji bara láta vorkenna mér, nema kannski fjölskyldan mín, en eins og gefur að skilja hefur hún alveg nóg að bera án þess að þurfa að halda mér uppi í leiðinni. Ég er grænmetisæta en ég veit ekkert af hverju". En ég veit að sama þótt ég segði það myndi fólk samt vera engu nær um hvað hrærist í hausnum mínum, því ég veit það ekki einu sinni sjálf.
Ég var með Emil á hlemmi um daginn þegar ég hitti stelpu sem heitir Auja (glöggir lesendur munu eflaust kannast við hana sem stelpuna sem kallaði mig belju :p). Við heilsuðumst, og stóum svo vandræðaleg smá stund. Þá segir hún: "Þetta er ótrúlega óþægilegt! Ég þekki ykkur eiginlega ekkert, þið þekkið mig eiginlega ekkert, og við höfum ekkert að segja við hvort annað, en samt stöndum við hér". Þetta braut endanlega ísinn fyrir mér, því ég fyrir mitt leyti var einmitt að hugsa "úff, hvað á ég eiginlega að segja, ég þekki þessa stelpu ekkert....". Svo tókum við tvær sama strætó og spjölluðum um heima og geima.
Maður verður bara að sætta sig við að maður veit ekki rassgat um fólkið í kringum mann. Ég get ekki vitað fyrir víst hvað róninn á lækjartorgi er að hugsa, og ég get ekki vitað fyrir víst hvað systir mín er að hugsa, þótt ég hafi þekkt hana frá því ég fæddist. Sumt er sannleikur, sumt er lygi, sumt er ýkjur, sumu halda manneskjur út af fyrir sig og sumt segja manneskjur og meina það einn daginn, en hafa svo skipt um skoðun daginn eftir. Það er hægt að túlka eitt orð á 300 mismunandi vegu, allt eftir því hvernig dag móttakandinn hefur átt. Það er erfitt til þess að hugsa að enginn skilur mig til fulls og ég skil engan. Það eina sem maður sér er fronturinn.

|

Móðir mín ástsæl

Bregst ekki! Á hverjum eeeeeiiinasta morgni kemur mamma inn í herbergið mitt, hálftíma áður en ég átti að vakna eða fyrr, og spyr mig hvort ég hafi ekki ööööörugglega stillt vekjaraklukkuna. Ég hef útskýrt fyrir henni að það sé frekar fáránlegt að í hvert einasta skipti sem ég stilli klukkuna til að geta fullnýtt þann litla svefn sem ég fæ, þá komi hún inn alltof snemma, og vekji mig til þess eins að spurja mig hvort ég muni ekki alveg örugglega vakna eftir klukkutíma. En enn heldur hún uppteknum hætti.

|

laugardagur, febrúar 14, 2004

Ahhh... Valentínusardagur

Í gær var föstudagurinn óhugnanlegi. Föstudagurinn varasami. Föstudagurinn sem ber að óttast. Í gær var föstudagurinn þrettándi. Þrettándi febrúar - afmælisdagur móður minnar. Fyrir mitt leyti sór hann sig ekki alveg í ætt við þær ógurlegu goðsagnir sem fylgja þessum degi - hvað þá fyrir mömmu leyti, og var fremur afslappaður. Ég held satt best að segja að þetta hafi verið ágætis dagur. Fyrir utan vægt lungnabólgubakslag og 38,5 stiga hita sem ég lét sem vind um eyru þjóta - skellti í mig tveim parasetamól og þrammaði svo á leiklistaræfingu.
Leiklistaræfing gekk líka ágætlega, ég tók dálitlum framförum miðað við þann hryllingsleik sem ég hef sýnt undanfarið og mátaði agnarlítinn hatt.
Með öðrum orðum ágætis dagur. Ég geri ráð fyrir að dagurinn í dag, valentínusardagur beri álíka mikið nafn með rentu og gærdagurinn. Það stefnir ekki í neitt ástarvesen hjá mér í dag (ég segi vesen því ég er bitur ;o). Hins vegar mun ég fagna því að vera komin á lappir og taka til í herberginu mínu. Þar hefur ekki verið þrifið í u.þ.b. mánuð og því sést hvorki í rúmið né gólfið. Ég gruna að eitthvað hafi dáið þarna inni og eflaust er þar líka að finna ræktarlegan mygluvöxt og annan bakteríugróður sem myndi nægja til að heilla hvaða vísindamann sem er. Af einhverjum ástæðum er ég samt ekkert ósátt við þetta hlutskipti en það má eflaust skýra með þeirri staðreynd að ég hef verið meira og minna rúmföst síðastliðna viku sökum lungnabólgu. Það sem verra var, ég var í rokna stuði alla vikuna en hafði takmarkaða líkamlega orku. Þetta var álíka sársaukafullt og að vera ótrúlega ótrúlega hamingjusamur og lífsglaður en þurfa að vera í 168 klukkutíma eðlisfræðitíma hjá Guðbjarti. Undir lokin var ég algerlega að missa vitið, bjó til puttabrúðuleikrit um heimilisofbeldi, lærði að láta flösku af einhverju ógeðslegu fótakremi halda jafnvægi á brúninni af "Jónas Hallgrímsson", samdi lag um mann sem heitir Carlos og á erfitt með að ná sér í konu þar sem hann hefur ýmsa undarlega siði, og glápti löngum stundum á útlínur flugu sem lést inni í loftljósinu okkar. Það hentar mér EINKAR illa að vera veik.
Þar sem ég var veik, var ég eins og aumingi í upphitunum fyrir leiklistartímann í gær. Reyndar er ég eins og aumingi í öllu sem tengist einhvers konar teygjuæfingum. Leikstjórinn sagði við okkur að muna að fólk sem er gott í íþróttum lifi betra kynlífi - betra úthald, fleiri stellingar - Þetta setur dálítinn ugg að mér þar sem ég er álíka sveigjanleg og vinnutími starfsmanns hjá utanríkisráðuneyti bandaríkjanna. This does not bode well

|

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Vull og bitleysa

Já.... svo þú segir það já? Usss, ég er með allsvæsna ritstíflu. Það eina sem mér dettur í hug er sú staðreynd að orðið Álfelgur höfðar mjög skemmtilega til mín. Það getur nefnilega bæði verið ál-felgur (einhverskonar tækniafrek notað í byggingariðnaði, ekki satt? Hvað er felga annars??) eða álf-elgur (þ.e.a.s. hófdýr af huldukyni) Jaseisei. Ek rembist og rembist eins og rjúpan við staurinn (en þær eru víst að verða æ algengari sökum veiðibanns) við að viðhalda gæðum þessa bloggs, ef einhver eru, en ekkert kemur. Aukinn rjúpnafjöldi gerir greinilega ekkert til að auka kraft rembingsins. Ætli rjúpur rembist á annað borð við staura? Afhverju ættu þær að gera það. Þær eru skrýtnar. Það er ég líka, eins og er altént því ég skrifa bara og skrifa en ekkert kemur út. Nothing of substance at any rate.
Hei!
Jú!
Það var eitt!

Nokkrir asnalegir hlutir til að gera í..... ræktinni: (til gamans má geta að margt af þessu eru hlutir sem mig greip skyndileg löngun til að gera einhverntíma í ræktarheimsókn minni um daginn (ussu sussu, ég verð að passa mig, því engin er ég sterakellingin). Restin fær Anna kredit fyrir, því hún hjálpaði mér við þessa hugmyndasmíð. En víkjum okkur nú aftur að asnalegu hlutunum:)
1. Fara í boozt barinn og spyrja hvort drykkirnir séu ódýrari ef maður kemur með eigin hráefni. Þegar viðkomandi hefur svarað neitandi, hóta þá að kæra hann/hana til neytendasamtakanna.
2. Mæta með eigin fjarstýringu og reyna, ákaflega pirraður að skipta um stöð.
3. Horfa á cartoon network með heyrnatól á eyrunum og hlæja ótrúlega hátt (þetta gerðum ég og Anna reyndar)
4. Fara inn á klósettið, vera þar dágóða stund og koma svo út með epladjús (eða annað tilfallandi) í þvagprufuglasi (einskorðast reyndar ekki við ræktina en dugir á hvaða almenningsklósetti sem er)
5. Bíða átekta í sturtunni eftir að einhver fari að ná sér í sápu og hlaupa þá til og taka sturtuna hans/hennar
6. Æfa sig í að ganga aftur á bak á hlaupabrettinu
7. Fara á hlaupabrettið á hækjum
8. Hamstra allar dýnurnar í gólfæfingasalnum og þykjast vera prinsessan á bauninni að gera magaæfingar.
9. Æpa týpísk róðrarhvatningarorð í róðrarvélinni.
10. Þegar manneskja í tækjasalnum er í tæki og fær sér pásu til að drekka vatn, laumast þá lymskulega aftan að viðkomandi og hækka/lækka þyngdarstillinguna
11. Gerast sjálfskipaður "starfsmaður í svitaafþurrkunardeild" og ganga á röðina með handklæði
12. Stilla þyngdarstillingu í e-u tæki á þyngsta, sitja svo lengi vel og rembast við að reyna að lyfta (með tilheyrandi kinnroða og æðaúttútnun)
14. Rekast síendurtekið "óvart" í emergency stop takkann og verða ógeðslega reið(ur)
15. Lauma chihuahuahundi (betur þekktur sem chiwawa) inn og reyna að kenna honum á hlaupabrettið

|