mánudagur, mars 29, 2004

Breytingar

Breyttur linkalisti! Ég veit að myndirnar eru allflestar ekki sérlega fínar, þannig að ef einhver á betri mynd eða er á einhvern hátt ósáttur, bara láta mig vita (Guðbjartsmyndirnar eru til dæmis allar frekar skrýtnar). Landscape myndir virka betur en portrait af því að ég hef allar myndirnar jafnháar en þær mega vera töluvert breiðar. Nærmyndir eru líka bestar, því að þetta er allt svo lítið og óskýrt
Takk fyrir

|

miðvikudagur, mars 24, 2004

Ég sá silfurskottu inni á baðherberginu í gærkvöldi. Ég reyndi eftir fremsta megni að góma hana/drepa hana, starði á hana þónokkra stund með tissjúið í hendinni, en fann þetta ekki hjá mér. Bévítans ótuktin greip þá tækifærið og skaust undir kommóðu. Ég fór út og lokaði baðherbergishurðinni til að kvikindið gæti ekki elt mig uppi og beið þangað til mamma kom heim. Við lyftum þá kommóðunni en þá hafði þessi óskammfeilna litla vera komið sér undan með einhverjum hætti og mun nú eflaust akkúrat á þessari stundu vera að fjölga sér grimmt inni í einhverri glufu.
Það mætti túlka þetta sem afsökunarvert athæfi hjá mér, eitthvað um það að ég beri virðingu fyrir öllu lífi. Það er ekki satt. Ég er bara kveif, og skíthrædd við þessi litlu kvikindi

|

laugardagur, mars 20, 2004

Pirringur, annars gott, takk fyrir

Ég var að blogga um hvað lífið væri nú sosum ágætt. Svo fraus bévítans tölvan. Köllum þetta smávægilegt afturhvarf. Ég nenni varla að skrifa aftur eftir þetta leiðindaatvik, en þar sem sorgbitna færslan á undan er búin að standa nægilega lengi, og ég á víst að heita Dory, þá varð ég aðeins að rétta af kútinn gagnvart þessum yndislegu manneskjum sem hafa verið til staðar fyrir mig. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk getur stundum sýnt manni mikla væntumþykju. Ég ætla ekki að telja alla upp, því að það eru svo margir sem eru búnir að hjálpa mér að ég myndi örugglega gleyma einhverjum í upptalningunni. Ég ætla að hætta þessu strax áður en þetta fer að hljóma eins og Óskarsræðan hjá Halle Berry.

Pabbi er annars við sama heygarðshornið, fær of mikinn svefn á meðan ég fæ of lítinn. Bévítans óréttlæti! ;) Hann er samt búinn að vakna tvisvar, í nokkrar mínútur í senn. Í hvorugt skiptið var ég viðstödd en mér er sagt að hann hafi bæði hreyft hausinn og sýnt viðbrögð við því sem var að gerast í kringum hann. Þett er góðs viti og svo er vorið líka komið. Þetta er allt að koma.

|

sunnudagur, mars 14, 2004

Mamma og pabbi eiga sér ljóð saman. Pabbi samdi það þegar hann var í lægð eftir fyrri meðferðina. Það er um andvaka vikapilt á skipi á miðjarðarhafi. Mamma fór til pabba í morgun og ætlaði að lesa ljóðið fyrir hann. Hún spurði mig hvort það væri ef til vill kaldhæðnislegt og óviðeigandi að lesa fyrir hann ljóð um manneskju sem er andvaka þegar hann sefur allan sólarhringinn á meðan mínútur, klukkustundir, dagar og helgar renna út í eitt. Ég sagði henni að maður gæti alveg verið andvaka þótt maður svæfi

Vonandi verður þetta góður dagur

|

sunnudagur, mars 07, 2004

postponing the inevitable

Varúðarráðstöfun: Ef þú tilheyrir þeim meirihluta blogglesenda sem les blogg upp á skemmtanagildi og húmor, ekki lesa þessa færslu. Hún hefur alla burði til að vera þunglyndisleg og dauf.

Ég er ótrúlega, ótrúlega reið. Ástæðurnar eru eitthvað sem verður ekki tíundað hér, enda er alltaf vafasamt að skrifa um misklíð eða vanþóknun á gjörðum annarar manneskju á netið. Æi, afhverju í fjáranum var ég þá að byrja á þessu? Vegna þess að ég hef ekkert annað að skrifa, en ég er að reyna að blekkja sjálfa mig til að trúa að það hafi í alvöru eitthvað drifið á daga mína þessa 4 daga síðan ég bloggaði síðast. Auk þess sem sú færsla var líka frekar rýr. Ég lifi nokkuð viðburðalitlu lífi, virðist vera.
Það sem ég skrifa núna er ekki einu sinni fullmótað í höfðinu á mér svo það má gera ráð fyrir að það sé nokkuð samhengislaust á skjá (myndi sega blaði, en það er nokkuð vafasamt að nokkur manneskja stundi það að prenta blogg út. Jaseisei.
Eins og er spila ég bara Mad World í Gary Jules útgáfunni aftur og aftur, sem segir allt sem segja þarf um hugarástand mitt. Dagurinn í dag hefur verið fullur af slæmum fréttum, tómleika, vonleysi og reiði. Slatta af húmor líka, reyndar, því ég fór á leiklistaræfingu, en ég er ekki alveg nógu mikið með sjálfri mér í dag til að jákvæðu hugsanirnar geti yfirgnæft þessar neikvæðu til lengri tíma.
Talandi um jákvætt og neikvætt, ég hef tekið eftir því að það er rosalega viðtekið alltaf að maður eigi alltaf að vera ánægður. Ef manneskja er alveg gífurlega hress einn daginn, án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, þá finnst öllum það ágætt, en ekkert óvenjulegt. Hins vegar, ef maður er bara leiður eða pirraður þá hlýtur eitthvað að vera að, og margir láta sig ekki fyrr en þeir hafa veitt upp úr manni einhverja dulda ástæðu þess að maður er í því skapi sem maður er. Getur það ekki bara verið að einn daginn framleiði maður bara aðeins minna af hressleikahormónum en annan daginn? Ég held að meðalskapgerð meðalmanneskjunnar sé nokkurn veginn í hlutlausa gírnum. Afhverju er þá ekki hægt að ætla að tilefnislaust vont skap sé alveg jafn eðlilegt og tilefnislaust gott skap? Ég er samt ekki að segja að fólk eigi þá bara að vera í sínu vonda skapi í friði, og smita það svo út frá sér með pirringi og áhugaleysi, því það er ekkert að því að reyna að bæta skapið dálítið. Það er bara þessi tilhneiging til að þurfa alltaf að komast að undirrót vandans sem fer í taugarnar á mér.
Neikvæðni dagsins í dag á sér samt undirrót. Það er ástæðan fyrir því að ég sit og blogga þótt að það eina sem mig langar virkilega að gera er að sofna. En ég vil ekki fást við þessar löngu mínútur áður en maður sofnar. Á þessum mínútum brýst hugurinn úr öllum böndum. Ég vil ekki þurfa að hugsa. "En þú þarft að hugsa til að skrifa" munu snarpir ef til vill hugsa, en þegar maður skrifar hefur maður þó einhvern hemil á því sem þýtur gegnum hausinn. Ég ætla því að vaka þar til ég verð svo örþreytt að ég sofna áður en ég næ að hugsa í kvöld. Hvað sem það nú gerir við einbeitingu mína í skólanum á morgun. Skítt með það

|

miðvikudagur, mars 03, 2004

Ugh

Aldrei hélt ég að ég yrði uppvís að því að þvo hestaskít af reiðstígvélum inni á salernisaðstöðunni í 'Minni Elísabetar'. Ja, svo bregðast krosstré sem önnur tré

|

Jess.... þessi var hvort sem er laaaaangbestur!!!

You are DORY!
What Finding Nemo Character are You?

brought to you by Quizilla

Í öðrum fréttum: templateið er breytt, og Júlía Ara, Marta Mirjam og Sigrún Elfa fengu link. Ég er nokkuð sátt, og þær mega vera það líka :D

|

þriðjudagur, mars 02, 2004

The pathological liar

Blóðþrýstingur minn fór upp úr öllu valdi í dag. Ég flutti nefnilega ræðu. Þetta var ekkert mikilvæg ræða, en náði engu að síður að koma líkamsstarfsemi minni í algera óreglu. Ég átti að flytja ræðu um "framtíð mína - draumastarfið", sem hluti af lífsleikniprógramminu. Mér fannst þetta alltaf frekar súrt verkefni, því ég er svo gersamlega glórulaus hvað framtíð mína varðar að ég stefni í að verða Drottning Eilífðarstúdentanna. Nei, nú ýki ég kannski, ég er nú bara í 3. bekk, óreyndur "nýnemi" (lesist busi), og hef því nægan tíma framundan til að demba mér í alvöru lífsins. En kjarni málsins er að eins og er hef ég ekki græna glóru um hvað draumastarfið er. Ég ákvað því einfaldlega að stíga skrefið til fulls, og í stað þess að bulla upp eitthvað semi-rökrétt og flytja það af hálfum hug míns vitræna sjálfs ákvað ég að bulla upp eitthvað algerlega órökrétt og flytja það af heilum hug míns óvitræna (er það annars orð?) sjálfs (er þetta of flókin setning.... ég held varla í við sjálfa mig). Ég sagðist því þrá það eitt að semja tónlist fyrir tölvuleiki, lýsti tölvuleikjatónlist sem hinu æðsta listformi og kallaði hana ('bein tilvitnun') "Flóðgátt fyrir takmarkalausa sköpunargleði" ('tilvitnun lýkur'). Það skrýtnasta er að ég fékk 100% fyrir rök!?!
Ég fékk fínustu einkunn fyrir þetta en hvað sem því líður varð hjartað á mér fyrir alvarlegri röskun. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég sé með dálitla (já, dálitla) fóbíu fyrir að tala fyrir framan áhorfendur. Ætli ég fái ekki taugaáfall þegar leikritið verður frumsýnt......
Daninn hefur haft samband! Hún heitir Camille, hefur gaman af íþróttum og hlustar á Brian Adams og Michael Jackson. Ég mun búa hjá henni þegar við förum til Danmerkur, og hún er búin að senda mér þrjú bréf.... mér líður eins og algerum kúk því ég var að svara fyrst núna... ég bara hef ekki minnstu hugmynd um hvað ég á að segja við hana. Ég ætlaði upprunalega að segja eitthvað eins og að ég væri Íslandsmeistari í Boccia, hefði óbilandi áhuga á bifvélavirkjun eða safnaði blýöntum frá mismunandi löndum. Það hefði hinsvegar getað komið mér í bobba, ef ég hefði t.a.m. lent hjá einhverri rosalegri bocciaspilandi, bifvélavirkjandi blýantssafnarafjölskyldu. Þá hefði ég þurft að feika matareitrun eða flýja, eða taka erfiða kostinn, roðna ótrúlega mikið og segja. "Undskyld, jeg har løjet. Jeg kan slet ikke spille boccia, jeg er ikke lidt interesseret i biler og jeg bruger altid en pen". Ég hefði því aðeins valdið vonbrigðum, eða verið lamin. En þegar ég get ekki bullað upp einhvern veruleika, eins og ég gerði í ræðunni (lesist ofar í færslu) hef ég ekki hugmynd um hvað ég á að segja....

|

mánudagur, mars 01, 2004

Dagur bömmera og vonbrigða

Æææi. Þetta er einn af þessum dögum þegar maður óskar þess heitar en nokkurs annars að hafa einfaldlega ekki skriðið fram úr rúminu í morgun. Ég svaf eiginlega ekkert í nótt sökum hósta og ákvað því að sleppa fyrsta tíma í morgun og sofa. Slacker. Ég átti hinsvegar að flytja ræðu í þeim tíma og því veit ég ekki hvort hann Knútur kallinn verður allt of hress... Ég fékk annars hugljómun seint í gærkvöldi um hvernig þessi ræða ætti að fara fram svo það er víst ágætt að fá dálítinn frest... En til að gera daginn minn enn verri þá var hringt í mig og mér tilkynnt að veskinu mínu hefði verið stolið (ég er búin að vera svo út úr kú síðastliðna daga að ég hafði ekki einu sinni tekið eftir því - æi, því var svo sem bara stolið í gærkvöldi) og að það hefði fundist á víðavangi og að einhver - líklega þjófurinn - hefði rifið úr því öll verðmæti og skilið bókasafnskort, subclub miða, tannlæknakort og fleira liggjandi á hráviði í blautu grasi. Innviði veskisins míns eru því annaðhvort horfin mér eða gersjúskuð.
Ég er núna í tölvustofunni og vekjaraklukkan mín var víst eitthvað að eipa en ég heyrði ekkert í henni af því að ég er að hlusta á tónlist í vasageislaspilara. Ég er því einnig búin að vekja pirring gesta tölvuversins og mér líður eins og hinum mesta þorpara. Lífið er dásamlegt!

Það eina sem mig langar að gera akkúrat núna er að öskra og blóta viðstöðulaust í nokkrar mínútur, fara svo niður í cösu og sofna. Ef einhver hittir mig í dag, óháð því hvernig viðkomandi þekkir mig eða hvort viðkomandi þekkir mig á annað borð, þá væri stórt faðmlag vel þegið. Ég myndi gera það næstbesta og fara og kaupa mér súkkulaði, en hvað er ég að segja? Veskinu mínu var stolið. Afhverju ég????

|