mánudagur, maí 28, 2007

Mæspeis og dónahleifar

Ég gæti sagt ykkur eftir hvaða krókaleiðum netheima ég fór, svona til að afsaka mig og forðast allan misskilning, en það eru málalengingar. Ég álpaðist inn á mæspeis síðu Jennu Jameson, þeirrar virtu dónakonu. Það er svosum ekki í frásögur færandi, en mér fannst hálfskondið að sjá myndir af henni og kærastanum hennar við hin ýmsu tækifæri, sumar bara svona ooo-við-erum-kærustupar-krúttu-venjulegar (aðrar reyndar alveg frekar sveittar og enn aðrar gallsúrar). Bottom lænið er það að klámstjörnur deita, giftast og eignast jafnvel börn. Það finnst mér alveg útúrsteikt. Þær vakna á morgnana og kyssa eiginmanninn sinn bless. Því næst fara þær í vinnuna, lesa handrit sem plöggar það einhvern vegin að ein kona þurfi 3 stælta karlmenn til að gera við sjónvarpið sitt, láta púðra og snyrta sitt allraheilagasta og "vinna svo vinnuna sína". Að degi loknum skoppa þær svo heim á leið og elda kjöthleif.

... eða kannski ekki kjöthleif


|

sunnudagur, maí 27, 2007

Kvenleggurinn

Amma mín upp úr þurru: ,,Ég held ég sé fífl"

|

laugardagur, maí 26, 2007

Blessaður kaninn

Af hverju getum við ekki gert þetta á útskriftinni, öll með stúdentshúfurnar, í stað þess að sitja undir milljón ræðum og söng við píanóundirleik. Íslendingar eru svo ófrumlegir.

P.S. Ég elska að þeir eru allir í stuttbuxum nema tveir

|

miðvikudagur, maí 23, 2007

Skömmin

Ég hef lagt það í vana minn að skammast mín fyrir allt mögulegt. Ég skammast mín fyrir hluti sem ég segi, það sem ég geri, hvernig ég geng, hvernig ég hlæ, hverju ég hef áhuga á, hvaða tónlist ég hlusta á og þar mætti lengi telja.

Í dag skammaðist ég mín fyrir að vera ekki nógu vel til höfð á Þjóðarbókhlöðunni. Þá fannst mér nóg komið.

|

þriðjudagur, maí 22, 2007

Var að flækjast á netinu áðan og rambaði inn á bloggsíðu eins fastakúnnans á mokka, sem leggur það í vana sinn að teikna myndir af fólki í kringum sig. Mér til mikilllar undrunar sýndist mér ein myndin á síðunni hans vera af mér og mér til meiri undrunar þá roðnaði ég upp í hársrætur. Svo þaut blóðið enn meira fram í kinnarnar á mér þegar ég fattaði að þetta var ekki einu sinni ég.

af þessu hef ég lært þrennt:
1. Það er vandasamt að vera ungur og allt of meðvitaður um sjálfan sig
2. Ég get roðnað allt frá enni og niður á bringu. Hakan þó undanskilin.
3. Þessi mynd er pínulítið lík mér.

|

sunnudagur, maí 20, 2007

Meðalmennskan

Íslendingar vilja allir verða mikilmenni. Það virðist vera brennt í sálir landans, við hliðina á hugtakinu ,,Íslandsvinur" sem allir hata en aldrei deyr. Sköpunargáfan er dýrkuð eins og gyðja og sé hún á annað borð til staðar er ekki vit í öðru en að bera hana á torg fyrir land og þjóð. Barist er um þessi örfáu sæti í Listaháskóla Íslands, en sjúkrahús landsins eru undirmönnuð. Bæði er jafn ábatasamt, sértu meðalmaður að hæfileikum eins og flestir aðrir, en hugtök eins og "passjón", "glamúr" og að "meika það" eru ekki viðloðandi frama í hjúkrunargeiranum.

Hér áður fyrr braust sköpunargleði meðalmannsins út í tómstundaiðju. Listaverkin voru heimasaumaðar barnasængur með flúrsaumi, útskornir trélistar, stöku málverk á vegg og stafli af teikningum ofan í skúffu. Tónverk voru samin fyrir mannamót, eða fyrir háttatíma barna. Hver maður átti sköpunargáfu sína fyrir eigið hjarta. Engan dreymdi um að lifa á listinni, og gerði einhver það, þá var það vegna þess að hann skaraði fram úr, sköpunargáfa hans var slík að hún átti erindi við aðra.

Nú er skapað fyrir markað og misgóðum verkum misgóðra listamanna er otað að manni úr öllum áttum. Æ fleiri ganga með þann draum í maganum að geta lifað á listinni, þrátt fyrir að draumurinn eigi sér ef til vill ekki dýpri rætur en að vilja vera gjaldgengur í hin ýmsu VIP herbergi. Æ fleiri sækja í listnám en líta niður á hagnýtt (ja, eða allskostar óhagnýtt) bóknám, vilja heldur eltast við drauminn um mikilmennsku en þann drauminn sem lýtur að því að geta séð eigin börnum farborða, eða bakað pönnukökur.

Ég hef lengi lumað á þeim þráláta draum í maganum að verða mikilmenni. Ég reyni að gefa honum sem minnstan gaum svona í daglegu lífi, en öðru hverju skýtur hann upp kollinum: Æ, jújú, ég er nú frekar drátthög, ætti ég kannski að fara í hönnun í amsterdam? Eða bara stofna hljómsveit eða eitthvað. Ég sveif á rósrauðu draumóraskýi í nokkra daga eftir að ég frétti að ég hefði fengið 9,5 á stúdentsprófi í íslenskri ritgerð, þarna hafði gullni vegurinn opnast til frægðar og frama sem rithöfundur. Ég ætti að drífa mig í megrun strax, kaupa mér týpugleraugu og hætta að setja mjólk út í kaffið mitt. Hinir væntanlegu ritsigrar mínir voru aukaatriði, aftur var það ímyndin og almenningsálitið sem lokkaði mig. Um leið og ég hafði áttað mig á því rankaði ég við mér hið snarasta, og sneri aftur til fyrri áætlana, að verða íslenskukennari.

Ef til vill mun eitthvað sem ég skapa eiga erindi við aðra, líklega þó ekki. Ég held hinsvegar að það hafi verið eitt af mínum mestu gæfusporum að snúa baki við draumnum um mikilmennsku. Nú horfi ég fram á veginn með tilhlökkunarkitl í maganum, í stað þess að finna bara til kvíða og vanmáttarkenndar. Ég ætla að láta VIP herbergi þessa heims lönd og leið, baka lummur á sunnudögum og hlaða niður börnum. Kannski verð ég ekki hönnuður í amsterdam, en ég ætla allavegana að sauma kjóla á dætur mínar og eiga kannski nokkrar teikningar ofan í skúffu. Það þykir mér alveg nóg.

|

laugardagur, maí 19, 2007

Leitið og þér munuð finna

Héðinn var á google myndaleitinni. Það sem hann var að leita að voru skjaldbökur. Það sem hann fann:

  • Turtle and Joel at the Ghetto.

  • Það er ekki einn einasti pixell á þessari mynd sem er ekki sveittur. Jú, kannski nokkrir þarna í efra horninu til vistri.

    |

    föstudagur, maí 18, 2007

    Hið fróðlega samspil hormóna og stúdentsprófa

    Í dag sneri ég aftur til gelgjuáranna, þessara ára sem ég hélt að ég hefði skilið eftir djúpt grafin í einhverjum skáp með reykelsunum, grátklökku vélrituðu dagbókarfærslunum og geisladisk með Toni Braxton.

    |

    fimmtudagur, maí 17, 2007

    Elvis er lentur

    Hvaða tími er betri til að hefja aftur bloggferilinn en þegar maður er orðinn svo ringlaður af próflestri að maður farinn að hugsa í e-s konar blöndu af latneskum hermennskufrösum, spænskum upphrópunum (¡Hombre!), þýskum bókmenntahugtökum og enskum setningum um morð og galdrakukl?

    Já maður spyr sig!

    |

    miðvikudagur, maí 16, 2007

    Ætthagafjötrar

    Ég hef ákveðið að verða Íslenskukennari

    |