Ekkert pólitískt í dag. Engar pælingar um heiminn og tilveruna. Aríel, kumpáni minn úr leiklistinni (hann er kumpáni, ég er kelling - sem lýsir einna best samskiptum okkar) og víðar segist hata blogg og bloggara. Hann segir að það sé leiðinlegt að lesa blogg sem eru á þessa leið: "Í dag vaknaði ég snemma og þurfti að fara í skólann fyrr en vanalega. Svaf samt í fyrstu tímunum, Stærðfræði og jarðfræði. Eftir það fór ég heim og lagði mig. Svo leigði ég spólu. Hún var ágætt, þetta var ágætis dagur.... blablablabla". Ég er reyndar sammála hvað það varðar, blogg geta alveg verið álíka áhugaverð og heimilisbókhald. En blogg getur líka verið hrein andstæða þess. Gott dæmi um þetta eru fjelagar mínir, Anna, Ragnheiður, Svava og Drekafluga. Allt krakkar sem blogga jú ef til vill nokkurs konar dagbók um líf sín og daglega viðburði, en ferst það samt úr hendi á nokkuð skemmtilegan hátt. Það er samt staðreynd að þegar maður bloggar þá er maður að skrifa til að einhver lesi það. Ég fyrir mitt leyti fylgist spennt með teljaranum á síðunni (kominn yfir 800!!!!!) og það liggur við að tilveran verði bjartari þegar maður fær comment! Þetta er athyglissýki ég veit, en ef ég vildi skrifa þurrprumpulega færslu um það hvað ég hefði borðað þennan daginn (soyaborgara úr frystinum, UGH) eða hvenær ég hefði vaknað í morgun (7:20 eftir langa og blóðuga baráttu við mömmu og vekjaraklukkuna) og hversu mikil hleðsla væri eftir á rafhlöðunni í símanum mínum (þrjú prik á NOKIA), þá myndi ég ekki vera að birta það á netinu, skráð í mr.blogjob.
Bloggari er samt ekki bara einhver svona hallærisleg kelling eins og Beta Rokk sem skrifar fylleríissögur af sjálfri sér og gerir svo úr þeim bók. Blogg geta verið nokkuð skemmtileg. Ég vísa aftur í fyrrnefnd blogg máli mínu til stuðnings.
P.S. Ég er ekki með gestabók, en öll comment verma mitt litla hjarta