föstudagur, janúar 30, 2004

Ekkert pólitískt í dag. Engar pælingar um heiminn og tilveruna. Aríel, kumpáni minn úr leiklistinni (hann er kumpáni, ég er kelling - sem lýsir einna best samskiptum okkar) og víðar segist hata blogg og bloggara. Hann segir að það sé leiðinlegt að lesa blogg sem eru á þessa leið: "Í dag vaknaði ég snemma og þurfti að fara í skólann fyrr en vanalega. Svaf samt í fyrstu tímunum, Stærðfræði og jarðfræði. Eftir það fór ég heim og lagði mig. Svo leigði ég spólu. Hún var ágætt, þetta var ágætis dagur.... blablablabla". Ég er reyndar sammála hvað það varðar, blogg geta alveg verið álíka áhugaverð og heimilisbókhald. En blogg getur líka verið hrein andstæða þess. Gott dæmi um þetta eru fjelagar mínir, Anna, Ragnheiður, Svava og Drekafluga. Allt krakkar sem blogga jú ef til vill nokkurs konar dagbók um líf sín og daglega viðburði, en ferst það samt úr hendi á nokkuð skemmtilegan hátt. Það er samt staðreynd að þegar maður bloggar þá er maður að skrifa til að einhver lesi það. Ég fyrir mitt leyti fylgist spennt með teljaranum á síðunni (kominn yfir 800!!!!!) og það liggur við að tilveran verði bjartari þegar maður fær comment! Þetta er athyglissýki ég veit, en ef ég vildi skrifa þurrprumpulega færslu um það hvað ég hefði borðað þennan daginn (soyaborgara úr frystinum, UGH) eða hvenær ég hefði vaknað í morgun (7:20 eftir langa og blóðuga baráttu við mömmu og vekjaraklukkuna) og hversu mikil hleðsla væri eftir á rafhlöðunni í símanum mínum (þrjú prik á NOKIA), þá myndi ég ekki vera að birta það á netinu, skráð í mr.blogjob.
Bloggari er samt ekki bara einhver svona hallærisleg kelling eins og Beta Rokk sem skrifar fylleríissögur af sjálfri sér og gerir svo úr þeim bók. Blogg geta verið nokkuð skemmtileg. Ég vísa aftur í fyrrnefnd blogg máli mínu til stuðnings.

P.S. Ég er ekki með gestabók, en öll comment verma mitt litla hjarta

|

mánudagur, janúar 26, 2004

Huhu. Kynfræðsla í dag! Það var indælt, nú ekki á hverjum degi sem maður fær að sjá stelpu skella á sig gervityppi og vera færð í smokk með tilheyrandi fool-proof-instructions frá annari stelpu. Svo þurftum við að láta delann ganga á milli og segja það sem fyrst kom upp í hugann. Ég var næstum síðust og því búið að dekka allt þetta "venjulega" sem hægt var að segja. Ég stundi því vandræðalega upp "höfuðverkur?" sem mæltist ekkert alltof vel fyrir. En að öðru leyti var þetta ágætis tími, féll mjög vel í kramið hjá mínum einfalda húmor. En svona á verri kantinn þá hef ég nú aðeins klukkutíma þar til leiklist hefst, og mig langar til að leggja mig, en ég er búin að sjá allt of margar myndir af ljótum typpum til að mig dreymi nokkuð fallegt.

Í öðrum tíðindum, fyrst að ég er á annað borð komin á veg sjálfsniðurægingar, þá fór ég í nýja World-Class í dag. Nú er augnhimna mín komin á skrá! I've never felt so special. Þetta væri annars ekki í frásögur færandi ef tilhögunin væri ekki þannig að risastóri glugginn á tækjasalnum sneri út að sundlauginni. Og þar sem svæðið er enn ekki fullbyggt þá þarf maður að hlaupa ótrúlega langan viðarplanka til að komast að sundlauginni. Og plankinn er ísi lagður í tilefni af þorranum. Maður þurfti því að hlaupa, hálfnakin og jafnvægislítil dágóðan spöl (jú, hann er dágóður ef maður er í þessari stöðu) með fullan sal af fólki starandi á mann. Ég er lööööngu komin yfir það stig að vera dálítið spéhrædd. Þetta er orðin hrein og bein paranoia.
Úff

|

sunnudagur, janúar 25, 2004

Black flowers blossom

Ég er algerlega tóm. Það kemst fátt fyrir í hausnum annað en minning og dagdraumur sem tekur allt pláss sem ég á fyrir hugsanir. Ég sit bara og hlusta á Teardrop með Massive Attack, reyndar bara af því að það er nokkuð flott lag, ekki það að ég finni mig á einhvern hátt í textanum. En ég hef víst fallið á standardnum og blogga frekar eitthvað leiðinlegt fremur en að blogga ekki neitt. En þetta er ágætis lag:

Love love is a verb
love is a doing word
fearless on my breath
gentle impulsion
shakes me, makes me lighter
fearless on my breath

teardrop on the fire
fearless on my breath

Nine night of matter
black flowers blossom
fearless on my breath
black flowers blossom
fearless on my breath

teardrop on the fire
fearless on my breath

Water is my eye
most faithful mirror
fearless on my breath
teardrop on the fire
of a confession
fearless on my breath
most faithful mirror
fearless on my breath

teardrop on the fire
fearless on my breath

Stumbling alittle
Stumbling alittle

Gæðum bloggs míns fer ört hrakandi.

|

laugardagur, janúar 24, 2004

I have no sense for timing.

Ég er allt of týnd núna til að læra, lesa, hugsa eða jafnvel borða. Ég mun að öllum líkindum falla í vor, því ég er að missa tökin. Afhverju er mér sama?

|

Æi

Hefur ykkur einhverntíma þótt svo ótrúlega vænt um einhvern að þið fáið sting í magann við það eitt að horfa á bakið á honum hreyfast þegar hann andar?

Ég ætla ekki að tjá mig meira í dag það sem það yrði sennilega andlaust og lítilfenglegt

|

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Grrrrrrr

Ímyndið ykkur að þið hafið farið snemma að sofa eitt kvöldið, og hugsað makindalega til þess að vakna hress og kát(ur) klukkan 8:20 morguninn eftir eftir fyrsta nægilega nætursvefninn sem þið hafið upplifað MJÖG lengi. Þetta hljómar nokkuð þægilega, ekki satt? Nei! Það er nefnilega segin saga að þegar maður hugsar sér gott til glóðarinnar varðandi eitthvað, þá munu plön mans falla glæsilega til grunna. Ég vaknaði í gærmorgun við það að mamma kom inn í herbergið mitt (hvað var hún að gera inni í herberginu mínu?), rakst í eitthvað svo það datt í gólfið (bang-klang-dink-dink-dink), öskraði ("ah, soddit!"), kveikti ljósið (augnsteinar mínir minnka svo mikið að þeir verða ekki greinanlegir mannlegu auga) og hóf að setja saman símann minn, sem hafði dottið í sundur við átökin. Þetta var einum og hálfum tíma áður en ég átti að vakna. Ég afræð bara að reyna að sofna aftur, en mamma afræður hinsvegar að fyrst ég sé á annað borð vöknuð, þá sé tilvalið að hefja samræður um viðtalstíma dönskukennarans míns. Ég urra á hana að hann sé milli hálfþrjú og þrjú og ætla svo að reyna að sofna aftur, enn neeeeei, pabbi heldur að ég sé ekki nógu ábyrgðarfull til að stilla klukkuna, svo hann kemur og ætlar að vekja mig. Eftir þetta get ég ekki sofnað aftur og pirringurinn mókir í kringum mig eins og eiturský.
En þetta var gærdagurinn. Í dag er dagur nýrra vona, nýrra ævintýra. Og að sitja heima, hringdi mig inn veika í morgun því ég held að þessir stanslausu 13 tíma skóla-funda-æfingadagar hafi gengið lítið eitt of nærri mér. Ég svaf til hádegis, sem var aaaaafar indælt. Á neikvæðu hliðina verð ég hinsvegar bráðlega að hefjast handa við eitt stykki ritgerð á spænsku og annað stykki ritgerð á íslensku, ég á að skila báðum á morgun, og á báðum hef ég ekki byrjað.

------------------------------------

Í jarðfræðitíma í gær sagði hún Ólöf okkur eitt það óhugnanlegasta sem ég hef heyrt. Þegar maður hefur verið í kafi aðeins of lengi fer líkaminn að finna fyrir falskri vellíðan og gleyma því að hann sé að drukkna. Þannig var til dæmis dæmi um einn dreng sem drukknaði í Hótel-Loftleiðalauginni fyrir einhverjum árum, það er talið að hann hafi einfaldlega verið í köfunarkeppni með vinum sínum og farið yfir þetta stig, og því ekki haft rænu á því að koma sér úr kafinu. Þetta er einnig ástæðan fyrir því að drukknandi manneskja ræðst stundum á bjargvætt sinn, því hann truflar vellíðunarástandið. Þetta fékk mig bara til að pæla, rosalega er líkaminn falskur. Það hefur gerst að mjög drukkið fólk klæðir sig úr því því er svo heitt, þótt það sé skítkalt úti, því áfengið veitir þeim falskan hita. Mér finnst þetta rosalega óhugnanlegt því maður treystir svo oft algjörlega í blindni á eigin skilningarvit.
Hinsvegar gerir þetta líka að verkum að ef maður drukknar þá deyr maður í það minnsta alveg hræðslu- og sársaukalaust

----------------------------------------

P.S. Ef einhver hefur einhver áhugaverð rök fyrir því hvers vegna samkynhneigðir ættu eða ættu ekki að fá að giftast og eignast börn, þá væri frábært að fá comment um efnið. Ég á nefnilega að skila rökfærsluritgerð fyrir morgundaginn um efnið, þar sem ég geri ráð fyrir rökum með jafnt sem og á móti. Þannig að allar pælingar væru vel þegnar, sérstaklega mótrök því mig skortir aðeins á þau, ég er svo ótrúlega hlynnt þessu sjálf.

|

mánudagur, janúar 19, 2004

Hinar óskráðu reglur samfélagsins

Getur einhver tekið mig í tíma í lífsleikni? Almennilegan tíma, ekki eitthvað bull um eitthvað tré í gjá sem á að takna sorgarviðbrögð í allt of einfaldri mynd. Ég á við ekta lífsleikni. Bara boðið mér heim til sín í tesopa (eða mjólkursopa, þar sem ég drekk ekki te) og sagt mér hvernig heimurinn virkar. Ég kann ekki á allt þetta óskráða sem maður á að fylgja í samskiptum sínum við aðra.
Forsaga málsins er: Ónefndur aðili (hann veit hver hann er, en les að öllum líkindum ekki bloggið mitt, hann er of upptekinn við að troða prikum upp í rassgatið á sér. Nei, fyrirgefið, þetta var biturt) hélt að ég væri hrifin af honum. Ég náði ekki að svara fyrr en hann var búinn að bombarda á mig vinaafsökuninni (mér þykir bara svo vænt um þig sem vin, ég vil ekki spilla því, blablabla - þetta rugl sem allir hafa bæði notað og/eða heyrt minnst einu sinni og er til þess gert að friða samviskuna). Eftir það tókst mér loks að stynja upp að ég væri hvort eð er ekkert hrifin af honum en þá hljómaði það bara eins og aumkunarverð viðleitni til að halda í smá snefil af stolti. Eftir þetta forðaðist hann mig eftir fremsta megni þangað til að loks ég talaði við hann og þá virtist aftur allt í ágætis standi. Svo fer hann að dreifa því til fólks að ég hafi verið hrifin af honum, sem ég var ekki, og þá verð ég náttúrulega frekar pirruð. Þannig að ég ákveð að vera bara hreinskilin við hann (á MSN - stupid, stupid, STUPID) og segja eins og er að mér finnist hann vera frábær náungi og þar af leiðandi nenni ég ekki að vera að ritskoða allt sem ég geri og segi við hann af ótta við að hann mistúlki eitthvað. Þá verður drengurinn eitthvað voða pirraður, segir mér að "chilla á því", hlær (eins skýrt og hægt er að hlæja á MSN) alveg ótrúlega mikið, verður svo alltíeinu ótrúlega leiðinlegur, hreytir í mig fúkyrðum og blokkar mig. Það eina sem ég er að spá er: "hefði ég bara átt að halda áfram að ritskoða?"
Þessi strákur getur verið svo mikill wanker stundum, það er eins og hann hafi þrjátíuþúsund mismunandi persónuleika og hann svissar svo hratt að ég hef ekki við að skilja hið minnsta. Ég er svo einföld að trúa því að allir eigi sér sínar góðu hliðar, og það sé eitthvað við hverja manneskju sem er þess virði að vingast við hana. Þess vegna er það algjört kjaftshögg að lenda í því, eins og ég lendi oft í, að vera sett algerlega á ís af einhverjum ástæðum. Og þá er ég ekki endilega að tala um þennan strák heldur almennt fólk sem ég þekki. Það eru svo ótrúlega margir sem forðast hreinskilni eins og heitan eldinn. Ég er ekki að meina að maður festi sig við manneskjuna eins og marglytta á fæti óheppins baðstrandargests, og verði meðvirkur og uppáþrengjandi. En er ekki allt í lagi að segja fólki þegar manni þykir mikið til þess koma?
Önnur óskráð regla sem ég kann engan veginn á er koss-á-kinn-reglan. Er til einhver regla sem segir til um það hvora hliðina maður á að fara á þegar maður kyssir aðstandanda eða vin sinn á kinnina? Ég lendi otar en ekki í einhverju svona 3-centímetra frá því að kyssast á munninn, skipta um hlið, æ úpps aftur, uhh, knúsar manneskuna vandræðalega og er svo bara niðurlútur og kinnrjóður. æ, ég ýki reyndar, maður kemst alveg yfir svona aðstæður, en er ekki til einhver einföld regla til að forðast að lenda í þessari stöðu?

Þetta blogg er tileinkað Önnu Margréti minni, því hún lætur sér það bara vel líka þegar ég segi henni hversu ótrúlega vænt mér þyki um hana.

|

Ég virðist halda að allur svefn undir meðalsvefnþörf sé jafn lítill. Fyrir mér verður maður alveg jafn þreyttur eftir 7 tíma svefn og 5 tíma svefn. Þegar klukkan er orðin aðeins of margt, og allt stefnir í að ég nái ekki áttatímasvefninum þá gef ég bara skít í svefninn og vaki til tvö við að breinstorma. Ég er að reyna að mynda form í huganum á mér, því það er bara ein teikning sem mig langar að gera, teikningin, en ég virðist ekki geta komið henni niður á blað, hún læðist bara mjög óskýrt um í hausnum á mér, og hleypir engum öðrum hugmyndum að. Ég er því búin að gefast upp á að teikna, því það vekur bara hjá mér pirring og vanmetakennd. Ég er að spá í að sanka að mér allskyns teiknibókum og reyna að yfirbuga þennan litla djöful.
Ég hef ákveðið að gerast grænmetisæta. Einhverjir munu eflaust líta á þetta sem einhvern wannabeisma hjá mér en ég sat bara inni í eldhúsi í fyrradag og fattaði allt í einu að það eru engin rök fyrir kjötáti. Það er bara ávani, ég gæti þrifist og dafnað ágætlega án þess. Ég dæmi samt alls ekki þá sem borða kjöt, þetta er bara mitt val og mín stefna. Ég ætla ekki einu sinni að kalla þetta lífsstíl, því ég trúi ekki á þetta "þú ert það sem þú borðar" kjaftæði, maður mótast af skoðunum sínum og tilfinningum, ekki því sem maður innbyrðir til að halda sér á lífi. Ég ætla samt að leyfa mér að borða kjúkling og fisk svona fyrst um sinn, taka þetta í skrefum svo ég eigi minna á hættu að "springa" á heitinu, auk þess sem ég kann ekki alveg á þær leiðir sem til eru til að öðlast prótein, ég þarf að kynna mér hnetur og baunir aðeins betur áður en ég stíg skrefið til fulls. Svo verðum ég og systir mín einar í kotinu í nokkurn tíma á meðan mamma og pabbi eru í Svíþjóð, og sem fyrrverandi grænmetisæta er hún nokkuð lunkin við gerð grænmetisrétta. Svo þetta ætti alveg að ganga upp hjá mér.
Ég fór á Love Actually áðan, með Önnu, Huldu og Jónatan. Þar sem stelpur voru í meirihluta fengum við að ráða myndinni, en ég held að Jónatan hafi verið nokkuð sáttur, hann og Hulda voru altént í ágætis fíling :p Myndin var ekkert leiklistarlegt meistarastykki, enda fjölmargar sögur í einni og því takmarkað hægt að fara ofan í persónusköpun. En hún var ferlega krúttleg, og ég skammast mín ægilega fyrir að segja þetta, en maður var hálfklökkur á köflum. Æi, maður er nú bara mannlegur

|

laugardagur, janúar 17, 2004

Ég hata

Ég hata efnishyggju. Ég hata þá staðreynd að það sé svo mikið sem MÖGULEGT að láta sér detta það í hug að einkarekið heilbrigðiskerfi sé það rétta í stöðunni. Ísland er að verða æ líkara Bandaríkjunum, menningin, hugsunarhátturinn, neyslan, stjórnkerfið. Það er eitt að hugsa stjórnkerfið út frá því að hver sé sinnar gæfu smiður en allt, ALLT annað að hafa samfélagið svo óheft/spillt að auður landsins færist á æ færri hendur. Að það sé á annað borð hægt að hamstra íslenskan atvinnumarkað svo mikið að maður geti ráðið lífsskilyrðum mörg hundruð manns. Og að einkareka spítalana. Viljum við í alvöru vera eins og í Bandaríkjunum, þar sem fátæklingum er úthýst vegna þess að þeir höfðu ekki efni á tryggingunum? Með þessari þróun er verið að viðurkenna að lífið sjálft ráðist ekki af neinu öðru en peningum. Með þessari þróun er verið að festa í sessi þann hugsunarhátt að því hærri launatékka sem þú hafir, því meiri rétt eigir þú á að lifa.
Vera má að hugsunarháttur minn sé að nokkru leyti litaður af stöðu minni í lífinu. Ég á pabba sem hefur greinst með krabbamein á alvarlegasta stigi (there, I said it) og það sér hver heilvita maður að lífið er nógu erfitt án þess að maður sökkvi í skuldasúpu í leiðinni. Meðferðin sem hann gengst undir kostar mörg hundruð þúsund krónur, ef ekki milljónir. Þetta er ekki eitthvað sem við höfum ráð á. Þess vegna er svo gott að vita til þess að öll þjóðin leggur í púkk til að veita þá þjónustu sem einstaklingar eins og pabbi, og svo margir aðrir þurfa. Þrátt fyrir einhvern pirring sem ég mun eflaust upplifa þegar ég berst við að láta enda ná saman, þá mun ég vera nokkuð sátt við að afhenda 40% af mínum launaseðli til að greiða fyrir eitthvað sem ég eða einhver aðstandenda minna mun kannski þurfa á lífsleiðinni.
Mér finnst altént ekki rökrétt að þeir ríku geti fengið að valta yfir þá ekki-eins-ríku, því það geta ekki allir verið ríkir, og til að sumir geti verið ríkir þurfa aðrir að vera fátækir. Það voru ekki bara þeir ríku sem sáu til þess að koma þingmönnunum á Alþingi með atkvæði sínu.
Ef tryggingasamningurinn gengur í gegn verð ég sennilega nokkuð óttaslegin. Þar sem pabbi hefur greinst með svona alvarlegan sjúkdóm eru góðar líkur á að ég fái ekki sjúkdómatryggingu. Hvern djöfulinn á ég þá að gera ef ég veikist?
Kannski við ættum líka að banna þeim efnaminnu að nota strætó. Þetta er jú líka þjónusta sem þeir lögðu ekki eins mikið í og þeir sem áttu meira aflögu.

|

föstudagur, janúar 16, 2004

Ég er komin með nýja rithönd sem minnir töluvert á Lord of the Rings skriftina. Ég kann ekki á myndakerfið á þessari síðu og get því ekkert fram fært, máli mínu til stuðnings en áhugasamir geta leitað til mín um ritdæmi sem ég stefni á að hafa í fórum mínum. Ég ætla að ýta því á undan mér í leikfangabarnavagni og kalla það Hákon.
Þetta er aðeins örstutt dæmi um hversu hátt minn fleygur flýgur þessa stundina, en eins og flugdreka hef ég fleyginn í bandi, ólíkt skynseminni sem virðist flogin á braut.
Anna Margrét spurði mig áðan á MSN hvað væri að frétta. Ég tók hana á orðinu og tilkynnti henni að ég væri með eilítinn hausverk, hárið væri í einni flókabendu og mig klæjaði í eyrað, en ég væri nýbúin að borða rjómatertu og því nokkuð vel haldin. Þetta er mín leið til að segja kurteisishjali stríð á hendur. Og, að sjálfsögðu að fá útrás fyrir einhvern óróa sem býr í mér, en það er annað mál. Málið er að fólk spyr mann alltaf hvernig maður hafi það, hvað sé að frétta eða hvað sé að gerast hjá manni þessa dagana, en vill svo ekkert heyra svarið. Ég hef ákveðið að næsti aðili sem spyr mig hvað ég segi gott fái að heyra eftirfarandi svar:
"Jæja, ég segi svosum allt sæmilegt, fékk að meðaleinkunn 8,3 á jólaprófunum en ég sef samt eiginlega bara í skólanum, sérstaklega í Eðlisfræði. Mér finnst eðlisfræði leiðinleg og ég stefni á heimsyfirráð, og ég ætla að láta senda alla eðlisfræðinga til nýja Sjálands, því djöfull hlýtur eðlisfræði að vera fyndin með nýsjálenskum hreim. Mig klæjar dálítið í vinstri nösina og er með dálítinn varaþurrk, en það stendur allt til bóta því ég ætla að fara í lyfju og kaupa mér Labello- á allra vörum (á þessum tímapunkti ætla ég að blikka viðmælandann samsærislega og gefa honum/henni olnbogaskot). Annað af mér að frétta er að ég er hætt með kærastanum mínum, ég gruna hann um að hafa bara verið að nota mig. Hann hætti allavegana með mér strax eftir að hafa sofið hjá mér. Ég held að ég sé ólétt. Hvað segir þú annars gott?" Bara til að sjá svipinn á viðkomandi vesaling sem gekk í gildruna.
Afhverju ætli það sé, að í menningu mannlegs samfelags séu til svona margar spurningar sem fólk vill ekkert svar við? Þetta er eitt af fyrstu spurningunum sem maður lærir í tungumálanámi, hvað segir þú? - como estás? - How are you? - Hvad siger du? (Ég læt hér staðar numi?, því ég kann ekki fleiri tungumál).

Ég fjarlægði söguna um uppruna Benna því hún vakti hörð viðbrögð gagnrýnenda og þótti sýna fordóma í garð Guatemala, Úsbekistan, hávaxinna og rauðhærðra. Þetta sýnir glögglega hversu illa mér ferst það stundum úr hendi að segja mína meiningu, enda var þessi skilningur engan vegin ætlunin. Guatemala er eitt þeirra landa sem mig langar að sjá einhvern daginn, rautt hár er ótrúlega fallegt (Bjarney getur staðfest aðdáun mína) og mér finnst oftast alveg ótrúlega sjarmerandi þegar strákar eru hávaxnir. Mér finnst fátt fallegra en sláni sem slagar upp í 3 metra og hefur takmarkaða stjórn á eigin útlimum. Ég er ekki að tala í kaldhæðni, ég hef mjög fastmótaðan smekk á karlpeningnum

|

miðvikudagur, janúar 14, 2004

stefnuleysi

Kaldhæðnislegt að á eina deginum sem ég fæ frí í leiklistinni, virðast allir vera að gera eitthvað annað. Þetta er eitt af þessum kvöldum sem maður botnar hvorki upp né niður í stöðu sinni... þeir sem hafa einhverntíma verið alveg virkilega, virkilega uppteknir til lengri eða skemmri tíma, skilja hvað ég á við. Daginn ádur hefur maður verið úti í 13 tíma án þess að stoppa, dagurinn eftir verður eins, en þessi eini litli dagur sem maður hefur ekkert að gera við og það setur mann algerlega úr jafnvægi. Maður er dottinn út úr allri sjónvarpsdagskrá, er næstum svangur en ekki samt alveg, næstum þreyttur en ekki samt alveg, og er algerlega laus við sköpunargáfu, því allan tíman hafa annirnar verið lagðar upp í hendurnar á manni og maður hefur einfaldlega orðið að bregðast við. Og það alsúrasta er, ég áttaði mig á þessari stöðu 10 mínútum eftir að tónleikar sem ég hafði ætlað mér að fara á, en hætt við sökum leiklistaræfingar, byrjuðu. Ég er ein af þessum óheppnu manneskjum sem fúnkerar ekki nema undir gífurlegri pressu, þegar ég hef helst ekki tíma til að sofa, og kann því engan veginn á frídaga.

Eins og fram kom, er ég einkar heiladauf þessa stundina og skapandi hugsun í algjöru lágmarki. Því ætla ég ekki að hafa þetta lengra, og forðast þar með að draga aðra með mér í svaðið. Hinsvegar lýsi ég áköf eftir einhverjum sem nennir að koma að gera eitthvað, hvað sem er

|

mánudagur, janúar 12, 2004

rants and raves about the name

Ég á það til að detta í andlega lægð og verða ægilega ósátt við nafnið mitt. Það virðist nefnilega vera staðreynd að margir tengja nafnið mitt við kýr. Dæmi:
Will be said in english for the following conversation took place in english. How the circumstance came that two icelanders were at a party and all chose to speak english, I don't know. It may however be in some way associated with the precence of a Swede. This was, apparently, a multinational party. However that is not the point. The point is that this girl called Auja was trying to explain some game where everyone was to play barn animals (I do believe some of my readers will have giggled fiercely at the thought of that, but anyway):
Auja: "Ok, I'm trying to explain this here! Take an example.......... (*pointing excitedly at me as if she were a ferret and I were.... another ferret doing something stupid*) You're a COW"
Klara: why thank you
Auja: No, silly, I don't mean it like that, I was just taking an example and this was the first thing that popped into my head!
Klara: Ah, so the first thing that pops into your head when looking at me is a cow?
Auja: um..... yeees... well, kinda, but it was really random, I coulda said it to anyone..... Anyway, continuing! (*pointing, equally excited at the person next to me*) You're a cat!
Klara: Ah, so she gets to be a cat?
Auja: It's RANDOM!
She then proceeded to name all the others, dog (mans best friend), cock (need I say more?), Bull (Bulls are COOL. They have piercings), Horse (black beauty, anyone?) and so forth.
Það hefur verið mér mikið bölvun að vera skírð eftir frekri belju úr teiknimyndablaði. Reyndar er ég skírð eftir ömmu minni, en það er önnur saga. Þegar fólk heyrir Klara, þá hugsar það sjálfvirkt "Klara Bella". Þegar fólk horfir á mig sér það því belju. Indælt, ekki satt? Í raun nokkuð kaldhæðið, þar sem Klara Bella þýðir tæknilega Klara hin fagra. Ég hef af og til íhugað að breyta um nafn, en í fyrsta lagi er ég bara Klara, belja eða engin belja. Í öðru lagi er nafnið tribute til ömmu, sem myndi eflaust verða sár og hún er yndisleg mannvera sem ég geri ekki svona lagað. Í þriðja lagi myndi ég eflaust tapa mér í einhverri stundarbrjálæðis-sköpunargleði og láta kalla mig Villimey, eða eitthvað viðlíka. Ég verð því að fá útrás fyrir brjálæðið ef ég einhverntíma eignast börn. Mér fyndist nokkuð fyndið að skíra börnin mín Ljótur og Líf Vera, bara svona upp á kikkið. Verð hinsvegar að berja niður þessa tilhneigð því maður vill nú ekki valda greyjunum sálrænum skaða

--------------------------------------------

Ó og á meðan ég man! CONVERGE í Iðnó á miðvikudaginn nk klukkan19:30, húsið opnar klukkan 19:00! Verð inn er 1200 kr. Þetta verður frábært. Ég kemst hinsvegar ekki, svo ég hef þetta ekkert lengra, ætla að fara og halda mínútu þögn. En endilega farið, og njótið þess lúxuss sem mér býðst ekki. (*snökt*)

|

mánudagur, janúar 05, 2004

N?rdaskapur

I'm back, I'm back, on popular demand ;) (segjum það....)

Ég verð að játa það. Nú er stundin, og ég ætla að koma út úr skápnum. Hver sem les þetta verður að sverja eið þess efnis að hann/hún muni ekki dæma mig og ekki gera grín að mér. Æi, ok, pínu grín, annað er víst ekki hægt. Ég er orðin forfallinn backgammon-fíkill. Ég datt inn í þetta með mömmu og Ólöfu systur þegar allar jólabækurnar voru uppurnar. Og nú hefur gamanið heldur betur kárnað, því spilaþörfin hefur farið fram úr spilaþörf fjölskyldu minnar og spila ég því á netinu við aðra forfallna nörda í sömu aðstöðu og ég.
Þetta hefur hinsvegar kynnt mig fyrir alveg nýjum afkima mannlífsins, sem hefur hingað til farið algerlega framhjá mér! Það er til fólk sem höstlar á backgammonsíðunni. Ég ætla ekki að hafa mörg um þetta því þá er ég farin að tala of mikið um lúserlegheit á netinu (sbr. síðasta grein) en með því hallærislegasta sem maður sér er þegar einhver segir (á backgammonspjallrásinni, nota bene) "Any hot girl with a webcam ready for a game and chat, no viewers please". But I probably am not in a position to judge, I guess the backgammon channel is as good a place as any. However, I find the thought of sex and backgammon alittle ridiculous, quite a turn-off really.

----------------------------

Afsakið þetta stutta enskuinnskot, en prufið a þýða þetta yfir á íslensku. Drepur húmorinn algerlega.

Fór í partý/chill til Önnu Margrétar í tilefni af afmæli þessarar elsku. Bakaði handa henni forláta (forljóta?) köku með kremi (og kertavaxi, en það var slys) og jarðfræðilegum formum (brekkur, holur, hæðir o.fl. - allt ómeðvitað). Mér var sagt að hún væri "æt" og gladdist ég mikið við þetta fagra hrós (Svava er yndisleg). Mér var hinsvegar slétt sama um kökulýtin, því síðastliðin 5 ár hefur það orðið vani að ég baka handa Önnu köku á afmælisdeginum hennar, og í öll fimm skiptin hefur kakan verið á einhvern hátt misheppnuð (Anna, manstu eftir kökunni með smjörkekkjunum?). Þetta var því bara ágætis viðbót við... ehemm..... áhugaverða hefð. Því það er mín einlæg skoðun að ekkert sé afmælið án afmælisköku og tilheyrandi kertablæstri. Og bætti nú um betur (as the englishmen would say, kicked the oddity up a notch) og gaf henni líka forláta skrifborðsgong.

----------------------------------------

Ég er víst orðin hin opinbera hár-og-förðunardama í mínum vinahóp og þótt víðar væri leitað. Stelpur jafnt sem strákar (einn strákur, nánar tilteki? - nema maður telji með hársvarðarnuddið sem Dagur í skólafélagsstjórninni heimtaði af mér þegar hann var fullur) leita þjónustu minnar, og ég tek fegin við öllum beiðnum. Morgundagurinn fer því allur í það að flétta hár uppi á Álftanesi. Og auk þess verð ég að leita mér heimilda um hárgreiðslur frá 7 áratugnum fyrir eina indælis manneskju sem ætlar á grímuballið í kvennó. Skrítið að ég skuli hafa lent í þessari stöðu þar sem ég er sennilega með ódömulegri stelpum, klippi á mérr hárið sjálf, nenni mjöööög sjaldan að mála mig og finnst leiðinlegt að kaupa skó. Móðir mín reynir ítrekað að snúa mér yfir á hina réttu trú en ef hún fengi að ráða gengi ég örugglega með hárið í silkiborðum og keypti mér bara bleika boli og buisnesskonubuxur. Nauhauts. Ég stend ekki einu sinni í lappirnar á háum hælum.

|

fimmtudagur, janúar 01, 2004

Afhverju vill mig enginn? :'(

Með því fyndnara sem maður sér dags-daglega eru svona greinar skrifaðar af "sérfræðingum" fyrir fólk sem þráir að finna sér sálufélaga en virðist ekki hafa náð tökum á því enn... Þetta er svo innilega mikið rugl! Það þekkja það víst flestir sem eru með MSN að þegar maður skráir sig innþá skýst upp svona MSN today gluggi með helstu greinum dagsins á MSN. Í dag skaust upp hjá mér gluggi og einn af þeim tenglum sem þarna voru skráðir hét "why are you still single?". Ég náttúrulega stóðst ekki mátið, hér var að finna svar við einni af mikilvægari spurningum lífsins, og þessi grein myndi eflaust geta útskýrt margt um tilvist mína og ástæður fyrir þessum herfilega galla sem ég bý víst yfir, að eiga mér ekki "betri" helming.... Smelli á hnappinn og síðan skýst upp. Kom í ljós að greinin var alls ekki af þeirri heimspekilegu dýpt sem ég hafði vonast eftir. Þetta varsvona Q&A grein, þar sem einhver einmana vesalingur veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar hún/hann er spurð(ur) eftirfarandi spurninum:
1. Why are you still single
2. How old are you
"Sérfræðingurinn" hefur að sjálfsögðu svar á reiðum höndum:
1. There is only one answer here: "Because I simply haven't met the right person yet."
2. There is only one right answer to this rude question: "Young enough to keep you guessing."
Varðandi aldurinn heldur hann áfram og segir að með því að segja til um sinn rétta aldur sé maður að skapa ákveðna hindrun milli sín og kærastans, þar sem hann muni eflaust vera fordómafullur hálfviti sem dæmi persónuleika manns eftir tölum. Ef maður hinsvegar ljúgi sér til um aldur sé maður að særa fordómafulla hálfvitann, og gera manni erfiðara fyrir að temja hann í framtíðinni. Því sé best að koma sér lymskulega út úr þessu með því að segja svona línu sem er bæði villandi og sexý (???). Maður eigi að bíða þar til maður þekki fýrinn betur og sé kominn í alvarlegt samband og svipta svo hulunni af eigin aldri og vona hið besta.
Staðreyndin er sú að sama hversu margar svona sjálfshjálpargreinar maður les, ég efast um að það styrki stöðu manns hið minnsta gagnvart gagnstæða kyninu. Þvert á móti fyndist mér það frekar óaðlaðandi ef ég lenti (god forbid) í því að vera höstluð af gaur sem hefði allar sína pikköpp línur af msn-personals eða þaðan af verra, og rembdist eins og rjúpan við staurinn við að vera svali-tilfinninganæmi-en-töff gæinn. Ég þoli ekki svona greinar þar sem sagt er: "men will not want you if you are fat, ugly, tie your hair in a pony tail while wearing a gucci dress - that SO doesn't match! You should embrace your looks, every wrinkle, curve, wart and ingrown hair, but all the same on this page we shall be advertising diet clubs and plastic surgery". Þetta er svo þverstæðukennt að aumingja þeir sem ákveða að fara "námskeiðsleiðina" í ástamálunum, hljóta að verða frekar sjúskaðir.
Auk þess myndi það pirra mig alveg ógeðslega mikið ef að maður spyrði fólk aldurs og það svaraði "Young enough to keep you guessing." En hvað veit ég, ég er svosem bara fimmtán ára, og gæti því ekki verið meira sama þótt ég sé ekki búin að finna þann eina rétta.
Jæja, ég ætla að fara út í garð að byggja snjóhús

-------------------------------------------

Þess fyrir utan: ég er nokkuð svekkt yfir að hafa fengið helmingi fleiri comment um skítamóralsmyndbandið en um rasismapælinguna. Look alive, ppl.

|